Skilti af Twitter-fuglinum, sem var fjarlægt af fyrrum höfuðstöðvum fyrirtækisins í San Francisco þegar Elon Musk, eigandi félagsins, breytti nafni þess í X, var selt á uppboði fyrir næstum 35 þúsund dali.

Uppboðshúsið RR Auction sagði fuglamerkið, sem er táknrænt fyrir Twitter, hafa selst fyrir 34.375 dali, eða sem nemur um 4,6 milljónum króna, eftir að uppboði lauk í síðustu viku. Kaupverðið var þó undir uppsettu verði sem var um 40 þúsund dalir.

Nafn kaupandans var ekki gefið upp af uppboðshúsinu, sem sérhæfir sig í sjaldgæfum safngripum.

Skiltið vegur um það bil 254 kíló og mælist um 3,7 metrar á lengd og 2,7 metrar á hæð.

Fuglamerkið var oft kallað Larry í daglegu tali í höfuðið á körfuboltagoðsögninni Larry Bird en það var einkennismerki samfélagsmiðilsins í ellefu ár eða allt þar til Musk breyti nafni hans og einkennismerki í X.