Fjártæknifyrirtækið Two Birds, sem er rekstraraðili og eigandi fjártæknivefsins Aurbjorg.is, hefur ákveðið að breyta nafni félagsins í Aurbjörg ehf. Aurbjörg er íslenskt fjártæknifyrirtæki sem einbeitir sér að því að auka fjármálalæsi og bæta fjármálastjórnun fyrir einstaklinga.
Í tilkynningu segir að nafnabreytingin sé liður í því að einfalda rekstur og þjónustu Aurbjargar, með sérstakri áherslu á vöruframboð og þægilegra aðgengi upplýsinga fyrir notendur.
„Þessi nafnabreyting er náttúruleg þróun á þeim áherslum sem við höfum haft frá upphafi. Fjármál heimila er stórt lýðheilsumál og við viljum auðvelda aðgengi að skýrum og gagnsæjum upplýsingum,“ segir Ásdís Arna Gottskálksdóttir, framkvæmdastjóri Aurbjargar.
Fyrr á árinu seldi Two Birds þar að auki fasteignaverðmat sitt til Creditinfo á Íslandi, sem var hluti af þeirri stefnumótun að styrkja rekstur Aurbjargar og bæta þjónustu fyrirtækisins við notendur.