Uber hefur undirritað samning að andvirði nokkurra milljarða dala um að kaupa sinn fyrsta flota sjálfkeyrandi leigubíla frá bandaríska rafbílaframleiðandanum Lucid.
Samhliða mun Uber fjárfesta fyrir 300 milljónir dala, eða um 37 milljarða króna, í Lucid og eignast 5% hlut í félaginu. Uber verður því næst stærsti hluthafi Lucid á eftir PIF, þjóðarsjóði Sádi-Arabíu, sem á 58% hlut í félaginu. PIF er einnig fimmti stærsti hluthafi Uber með 3,5% hlut.
Uber mun kaupa a.m.k. 20 þúsund bíla frá Lucid sem verða afhendir yfir sex ára tímabil. Fyrstu bílarnir verða afhentir á næsta ári.
Lucid mun þróa sérhannaða útgáfu af Lucid Gravity jepplingnum og styðjast við tækni frá sprotafyrirtæktinu Nuro, sem sérhæfir sig í skynjurum og hugbúnaði fyrir sjálfkeyrandi bíla.
Smásöluverð Lucid Gravity nemur 94 þúsund dala, eða 11,5 milljónum króna á gengi dagsins. Jepplingurinn er með drægni upp á 720 kílómetra.
Uber mun einnig fjárfesta í Nuro fyrir „umtalsverða“ fjárhæð og fá sæti í stjórn sprotafyrirtækisins. Talið er að fjárfestingin hlaupi á hundruð milljóna dala, að því er segir í umfjöllun Financial Times. Nuro var metið á 6 milljarða dala í nýjustu fjármögnunarlotu félagsins.
Samningurinn gæti orðið mikil lyftistöng fyrir Lucid sem tapaði nærri 6 milljörðum dala á árunum 2023 og 2024. Hlutabréfaverð rafbílaframleiðandans hefur hækkað um 29% í fyrstu viðskiptum eftir opnun markaða vestanhafs. Þess má geta að gengi Lucid hafði fyrir daginn í dag fallið um 95% frá því að hafa náð hæstu hæðum í nóvember 2021.
Hlutabréfaverð Uber hefur fallið um hálft prósent frá opnun markaða í dag.