Farveitan Uber var með jákvætt lausafjárstreymi (e. free cash flow) upp á 382 milljónir dala á öðrum ársfjórðungi en greiningaraðilar áttu von á að fjárhæðin yrði nær 109 milljónum dala. Hlutabréf Uber hafa hækkað um meira en 13% í viðskiptum fyrir opnun markaða. Financial Times greinir frá.
Um er að ræða fyrsta skiptið í sögu fyrirtækisins sem það er með jákvætt sjóðstreymi en Uber hefur brennt í gegnum 25 milljarða dala, eða um 3.400 milljarða króna, frá stofnun fyrir þrettán árum. Farveitan hefur hingað til niðurgreitt fargjöld til að ná fótfestu á leigubílamörkuðum víða um heim.
„Þetta markar nýjan kafla í sögu Uber. Við getum nú fjármagnað sjálf framtíðarvöxt með agaðri ráðstöfun fjármuna og hámarkað langtímaávöxtun hluthafa,“ er haft eftir fjármálastjóra Uber.
Uber tapaði engu að síður 2,6 milljörðum dala á fjórðungnum sem má að stórum hluta rekja til fjárfestinga á borð við Aurora, sem sérhæfir sig í sjálfkeyrandi bílum, og sedingarþjónustunum Grab og Zomato.
Tekjur farveitunnar meira en tvöfölduðust á milli ára og námu 8,1 milljarði dala en greiningaraðilar áttu von á að tekjurnar yrðu í kringum 7,4 milljarðar dala.