Árið 2023 var fyrsta árið sem Uber Technologies skilaði inn hagnaði fyrir allt árið eftir að fyrirtækið var skráð á markað. Bandaríska aksturs- og heimsendingafyrirtækið býst við áframhaldandi vexti á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og ljóst að fyrirtækið sé hætt að taka vöxt fram yfir hagnað.

Uber Technologies hagnaðist um 1,43 milljarða dala árið 2023. Það hafði áður fyrr skilað inn hagnaði fyrir árið 2018 en fyrirtækið var ekki skráð á markað fyrr en árið 2019.

Velgengni fyrirtækisins á síðasta ársfjórðungi 2023 bendir til þess að mikil eftirspurn sé eftir leigubíla- og heimsendingarþjónustu Uber, en það rekur meðal annars vinsæla smáforritið Uber Eats. Heildarverðmæti viðskipta á forritinu jukust þá um 22% í 37,58 milljarða dala.

Uber gerir þá ráð fyrir að heildarviðskipti smáforritsins verði á bilinu 37 til 38,5 milljarðar dala á fyrstu þremur mánuðum þessa árs.

Reynsla fyrirtækisins frá heimsfaraldrinum hefur einnig hjálpað Uber til muna en það neyddist til að skera niður og einblína á heimsendingarþjónustu. Uber fækkaði þá starfsfólki og dró úr áformum sínum um sjálfkeyrandi bíla.