Tilkynnt var eftir lokun markaða á föstudaginn að farveitan Uber verður meðal félaga í S&P 500 vísitölunni frá og með 18. desember næstkomandi.

Fyrirtæki þurfa að uppfylla fjölda skilyrða til að vera tekin inn í hlutabréfavísitöluna en það getur reynst mjög ábatasamt fyrir félög að komast inn í hana.

Í umfjöllun WSJ segir að eignir að andvirði þúsund milljarða dala séu í stýringu hjá sjóðum eða aðilum sem fylgja eða fjárfesta í takt við hreyfingar á S&P 500 vísitölunni. Að komast inn í vísitöluna getur því haft í för með sér að fjöldi fjárfesta kaupa bréf í umræddu félagi í takti við vægi þess.

Hlutabréfaverð Uber stóð í 57,35 dölum á hlut við lokun markaða á föstudaginn. Gengi félagsins hefur hækkað um 5,5% í framvirkum viðskiptum og stendur nú í 60,5 dölum á hlut. Hækkunin er rakin til inngöngu félagsins í S&P 500.