Svissenski fjárfestingarbankinn UBS Group og dótturfélög hans hafa eignast samtals um yfir 5% hlut í Marel. Þetta kemur fram í flöggunartilkynningu.
Alls heldur UBS á tæplega 40,7 milljónum hluta, eða um 5,28% eignarhlut, í Marel sem er yfir 25 milljarðar króna að markaðsvirði. Gera má ráð fyrir rekja megi eignarhlutinn að stórum hluta til sjóða í stýringu hjá UBS eða önnur viðskipti á eignastýringasviði bankans.
Í viðauka við flöggunartilkynninguna má sjá að eignarhlutinn má m.a. rekja til nokkurra félag á vegum UBS Asset Management.
Flöggunartilkynningin er birt þegar eina vika er eftir af tilboðsfresti yfirtökutilboðs John Bean Technologies Corporation í Marel en hann rennur út 20. desember. Bandaríska félagið gerir ráð fyrir að uppgjöri viðskiptanna verði lokið eigi síðar en 3. janúar 2025, en tilkynnt var í lok nóvember að samþykki hefði fengist frá öllum hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöldum vegna fyrirhugaðrar yfirtöku JBT á Marel.
Viðskiptablaðið fjallaði nýlega um að ýmsir erlendir sjóðir hafa verið að skortselja hlutabréf JBT en kaupa jafn mikið á móti í Marel til að festa inn hagnað út frá mismuninum þegar tilboðið gengur í gegn.
Einungis fjórir aðrir hluthafar í Marel eiga yfir 5% hlut í félaginu. Fjárfestingarfélagið Eyrir Invest er stærsti hluthafi Marels með 24,7% hlut. Þá eiga lífeyrissjóðirnir Gildi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) og Lífeyrissjóður starfsamanna ríkisins (LSR) allir yfir 5% beinan hlut í Marel.