Hlutabréfaverð Icelandair hefur tekið kipp síðastliðnar vikur en gengið hefur nú hækkað um 16% á einum mánuði.
Dagslokagengi flugfélagsins var 1,03 krónur en gengi Icelandair hefur eytt stórum hluta ársins undir einni krónu.
Hlutabréf flugfélagsins hafa þó enn lækkað um 23% það sem af er ári og 29% síðastliðið ár.
Viðskiptablaðið ræddi við sérfræðinga á mörkuðum eftir að gengi flugfélagsins hækkaði um 6,5% á mánudaginn og var það mat þeirra að meginástæða hækkunarinnar hafi verið sú að fjárfestar væru að loka skortstöðum.
Þegar skortstöðu í félagi er lokað þarf bankinn, sem mótaðili viðskiptanna, að kaupa bréf til að loka stöðunni. Það leiðir alla jafna til hækkunar á verði hlutabréfa en yfir 600 milljón króna velta var með bréf Icelandair á mánudaginn.
Olíuverð hefur þó einnig lækkað talsvert að undanförnu og haldist stöðugt þrátt fyrir mikinn óróa fyrir botni Miðjarðarhafs.
Almenn bjartsýni fyrir vetrinum, betri nýtingatölur sem gætu haft jákvæð áhrif á uppgjör á þriðja ársfjórðungi gæti einnig verið að spila inn í.
Gengi Amaroq tekur kipp
Hlutabréfaverð Amaroq hefur einnig verið á miklu skriði síðustu daga en gengið fór niður í 100 krónur um miðjan mánuð. Síðan þá hefur hlutabréfaverð málmleitarfélagsins hækkað um 17% og var dagslokagengið 117 krónur eftir um 415 milljón króna veltu í dag.
Gengi Reita leiddi lækkanir á aðalmarkaði er hlutabréf fasteignafélagsins lækkuðu um tæp 2% í 515 milljón króna viðskiptum.
Reitir undirrituðu í gær samkomulag um kaup á iðnaðarhúsnæði við Vesturvör 32b og tveim verslunarrýmum að Hafnarbraut 13b og 15c í Kópavogi. Fasteignirnar eru um 5.300 fermetrar að stærð og hýsa rekstur átta leigutaka.
Heildarvirði kaupanna er 2,3 milljarðar króna sem verður að fullu fjármagnað með handbæru fé og lánsfé.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,49% og var heildarvelta á markaði um 6 milljarðar.