Hlutabréf í JBT Marel hafa hækkað um tæp 17% síðustu tvo viðskiptadaga en félagið birti uppgjör eftir lokun markaða á mánudaginn.
Um 322 milljón króna velta var með bréf félagsins í dag og var daglokagengið 19.000 krónur á hlut eftir um 4,4% hækkun í viðskiptum dagsins.
Samkvæmt uppgjöri félagsins gera stjórnendur ráð fyrir mikilli hagræðingu í kjölfar samrunans og stefna að því að ná allt að 150 milljóna dala sparnaði, eða um 21,1 milljarði íslenskra króna, innan þriggja ára.
Fyrir árið 2025 áætlar JBT Marel heildartekjur á bilinu 3,5 til 3,6 milljarða dala, eða um 500 milljarða íslenskra króna, en aðlagað EBITDA-hlutfall er áætlað á bilinu 15,75 til 16,50 prósent.
Félagið stefnir að því að ná árlegum kostnaðarsamlegðum upp á 80 til 90 milljónir dala, eða um 11,2 til 12,5 milljörðum íslenskra króna, í lok árs 2025.
Gengi Play tekur við sér
Hlutabréfaverð flugfélagsins Play hækkaði um tæp 9% í örviðskiptum í dag og lokaði gengið í 0,83 krónum.
Rúm vika er síðan flugfélagið birti ársuppgjör sitt en þar kom fram að félagið skilaði 66 milljóna dala tapi á liðnu ári, sem nemur ríflega 9,1 milljarði króna.
Til samanburðar tapaði félagið um 35 milljónum dala árið áður, sem nemur 4,8 milljörðum króna. Hefur félagið í heildina tapað 171,4 milljónum dala frá stofnun þess, sem nemur 23,3 milljörðum króna.
Gengi Eimskips lækkaði um rúmt 1% í tæplega 100 milljón króna viðskiptum og var dagslokagengið 458 krónur. Oculis lækkaði einnig um 1% í viðskiptum dagsins og var daglokagengið 2.850 krónur.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,98% og var heildarvelta á markaði 4 milljarðar.