Einstaklingum sem þurfa á búsetuúrræði að halda hefur fjölgað mjög mikið undanfarið. Ástæðan er fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd. Ef fram fer sem horfir má vænta þess að fjöldi fólks í húsnæði á vegum Vinnumálastofnunar verði þrefaldur innan tíðar, borið saman við júlí 2022.

Samkvæmt tölfræði frá Vinnumálastofnun búa nú 2.000 einstaklingar í húsnæði sem stofnunin hefur útvegað þeim, en þeir voru 700 í júlí í fyrra. Í tölum Vinnumálastofnunar kemur ekki fram hve stór hluti umsækjenda um alþjóðlega vernd býr í húsnæði á almennum markaði, en umræða um bága stöðu leigjenda og önnur vandkvæði á leigumarkaði hefur verið áberandi undanfarið.

„Aldrei hafa jafnmargir sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi en um þessar mundir. Það sem af er ári eru umsækjendur orðnir fleiri en á sama tíma í fyrra eða um 2.000 talsins. Að jafnaði hafa um 100 einstaklingar á viku sótt um alþjóðlega vernd hér á landi frá því í janúar sl,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.