Leik- og grunnskólar Reykjavíkurborgar voru nær allir reknir með halla árið 2024. Heildarfrávik Skóla- og frístundasviðs nam 2.492 milljónum króna.
Tekjur voru á sama tíma 22,6% meiri en áætlun gerði ráð fyrir m.a. vegna styrkja og tekna vegna hælisleitenda sem námu samtals 477 milljónum. Tekjur umfram áætlun vegna þjónustu við önnur sveitarfélög námu 622 milljónum króna.
Launakostnaður fór sérstaklega fram úr áætlun vegna langvarandi veikinda, fjölgunar barna með sérþarfir og vaxandi þjónustukrafna, samkvæmt greinargerð fagsviða.
Veikindahlutfall í leikskólum 9,2%.
Samkvæmt greinargerð með ársreikningi Reykjavíkurborgar námu nettóútgjöld skóla- og frístundasviðs alls 79.998 milljónum króna á móti fjárheimildum upp á 77.506 milljónir.
Frávikið nam því 2.492 milljónum króna, eða 3,2%. Þar af skýrist 1.857 milljóna króna frávik beint af launakostnaði sem fór 3,5% fram úr fjárheimildum.
Leikskólarnir fóru samtals 2.288 milljónum fram úr fjárheimildum, sem jafngildir 11,9% rekstrarhalla.
Launakostnaðurinn nam þar 1.983 milljónum umfram fjárveitingu. Afleysingar vegna langtímaveikinda bættu við sig sérstaklega, umframkostnaður vegna þeirra nam 251 milljón króna. Veikindahlutfall í leikskólum mældist 9,2%.
Auk þess þurfti að veita 685 milljónum króna til viðbótar vegna aukinnar stuðningsþarfar barna með fjölþættan vanda. Húsnæðisvandamál, einkum rakaskemmdir og takmörkuð nýting nýrra leikskólarýma vegna undirmönnunar, juku einnig rekstrarálagið.
„Heildarútgjöld brúttó til leikskóla sem borgin rekur hafa hækkað um 9,2% á föstu verðlagi frá 2019. Útgjöld á hvert barn í leikskólum sem borgin rekur hafa hækkað um 3,4% á föstu verðlagi frá árinu 2019. Minni aukning á barn en heildarhækkun kemur til vegna fjölgunar barna þar sem kostnaður dreifist á fleiri börn.
Tekjur hafa dregist saman á föstu verðlagi og voru á árinu 2024 9% lægri í heild en þær voru 2019. Tekjur á hvert barn hafa lækkað um 19% sem kemur til þar sem gjaldskrá hefur ekki haldið í við hækkun verðlags auk áhrifa afslátta. Kostnaðarþátttaka foreldra var 9,9% á árinu 2019 en var 7,7% árið 2024. Mikilvægt er að mótuð verði stefna borgarinnar um kostnaðarþátttöku foreldra vegna reksturs leikskóla,” segir í ábendingum Fjármála- og áhættustýringarsviðs.
„Á sama tíma og áhersla er á fjölgun leikskólaplássa til að takast á við biðlista, hefur borgin ítrekað þurft að taka leikskólahúsnæði úr rekstri vegna rakaskemmda sem hefur hægt á getu sviðsins til að ná niður biðlistum í samræmi við væntingar. Þá hefur ekki tekist að fullmanna leikskóla borgarinnar sem jafnframt hefur leitt til þess að gildandi rekstrarleyfi eru ekki fullnýtt. Mikilvægt er að áætlun um uppbyggingu og fjölgun leikskólarýma taki mið af þeirri stöðu,” segir enn fremur í ábendingum Fjármála- og áhættustýringarsviðs.
Veikindi og móttaka flóttabarna veldur halla
Grunnskólar borgarinnar fóru 654 milljónum fram úr fjárheimildum. Launakostnaður þar nam 432 milljónum króna umfram áætlun, þar af voru 313 milljónir vegna afleysinga tengdra veikindum.
Heildarveikindahlutfall í grunnskólum mældist 7,4%, þar af 4,8% skammtímaveikindi og 2,6% langtímaveikindi.
Viðbótarkostnaður vegna mötuneyta, skólaaksturs og húsnæðisreksturs var einnig umtalsverður.
Þá hafði móttaka flóttabarna og hælisleitenda töluverð áhrif, sérstaklega á Klettaskóla, sem skilaði 234 milljóna króna halla.
Klettaskóli er sérskóli á grunnskólastigi sem þjónar öllu landinu en um 45% nemenda skólans eiga lögheimili utan Reykjavíkur og skortir því tengdar tekjur í formi útsvars, samkvæmt greinargerð fagsviða.
Lofa umbótum í ár
Unnið hefur verið nýtt fjárúthlutunarlíkan fyrir leikskóla sem tók gildi í ár.
Það miðar að því að bæta samræmi milli rekstrarþarfa og fjárveitinga. Í líkaninu er gert ráð fyrir 1.970 milljóna króna hækkun á fjárheimildum sviðsins. Enn sem komið er hefur sú upphæð ekki verið formlega úthlutuð, samkvæmt greinargerð.
Samhliða hefur borgin hert verklag um nýráðningar: allar ráðningar innan sviðsins fara nú í gegnum sérstaka ráðninganefnd sem metur þörf og fjárhagslega getu áður en staða er samþykkt. Markmiðið er að auka gagnsæi og hemja óhóflegan vöxt stöðugilda.
Samkvæmt reikningi borgarinnar og greinargerð fagsviða er rekstur Skóla- og frístundasviðs enn undir töluverðu álagi álagi.
Hallarekstur í leik- og grunnskólum er nú knúinn áfram af þremur meginþáttum: viðvarandi veikindum og afleysingakostnaði, aukinni þjónustuþörf barna með sérþarfir og skorti á raunhæfri fjármögnun sérúrræða og húsnæðis.
Umbótaáform eru til staðar bæði í formi nýrra reiknilíkana og aukins aðhalds við ráðningar en raunverulegur árangur krefst þess að fjárhagsrammar borgarinnar taki mið af breyttum veruleika á vettvangi, ekki síst í leikskólum þar sem húsnæði, mannafli og rekstrarkostnaður hafa þróast hraðar en tekjuviðmið og úthlutun.