Leik- og grunnskólar Reykja­víkur­borgar voru nær allir reknir með halla árið 2024. Heildar­frávik Skóla- og frí­stunda­sviðs nam 2.492 milljónum króna.

Tekjur voru á sama tíma 22,6% meiri en áætlun gerði ráð fyrir m.a. vegna styrkja og tekna vegna hælis­leit­enda sem námu sam­tals 477 milljónum. Tekjur um­fram áætlun vegna þjónustu við önnur sveitarfélög námu 622 milljónum króna.

Launa­kostnaður fór sér­stak­lega fram úr áætlun vegna lang­varandi veikinda, fjölgunar barna með sérþarfir og vaxandi þjónustu­krafna, sam­kvæmt greinar­gerð fag­sviða.

Veikinda­hlut­fall í leikskólum 9,2%.

Sam­kvæmt greinar­gerð með árs­reikningi Reykja­víkur­borgar námu nettóút­gjöld skóla- og frí­stunda­sviðs alls 79.998 milljónum króna á móti fjár­heimildum upp á 77.506 milljónir.

Frávikið nam því 2.492 milljónum króna, eða 3,2%. Þar af skýrist 1.857 milljóna króna frávik beint af launa­kostnaði sem fór 3,5% fram úr fjár­heimildum.

Leikskólarnir fóru sam­tals 2.288 milljónum fram úr fjár­heimildum, sem jafn­gildir 11,9% rekstrar­halla.

Launa­kostnaðurinn nam þar 1.983 milljónum um­fram fjár­veitingu. Af­leysingar vegna langtíma­veikinda bættu við sig sér­stak­lega, um­fram­kostnaður vegna þeirra nam 251 milljón króna. Veikinda­hlut­fall í leikskólum mældist 9,2%.

Auk þess þurfti að veita 685 milljónum króna til viðbótar vegna aukinnar stuðningsþar­far barna með fjölþættan vanda. Húsnæðis­vanda­mál, einkum raka­skemmdir og tak­mörkuð nýting nýrra leikskólarýma vegna undir­mönnunar, juku einnig rekstrarálagið.

„Heildarút­gjöld brúttó til leikskóla sem borgin rekur hafa hækkað um 9,2% á föstu verðlagi frá 2019. Út­gjöld á hvert barn í leikskólum sem borgin rekur hafa hækkað um 3,4% á föstu verðlagi frá árinu 2019. Minni aukning á barn en heildar­hækkun kemur til vegna fjölgunar barna þar sem kostnaður dreifist á fleiri börn.

Tekjur hafa dregist saman á föstu verðlagi og voru á árinu 2024 9% lægri í heild en þær voru 2019. Tekjur á hvert barn hafa lækkað um 19% sem kemur til þar sem gjald­skrá hefur ekki haldið í við hækkun verðlags auk áhrifa af­slátta. Kostnaðarþátt­taka for­eldra var 9,9% á árinu 2019 en var 7,7% árið 2024. Mikilvægt er að mótuð verði stefna borgarinnar um kostnaðarþátt­töku for­eldra vegna reksturs leikskóla,” segir í ábendingum Fjár­mála- og áhættustýringar­sviðs.

„Á sama tíma og áhersla er á fjölgun leikskóla­plássa til að takast á við biðlista, hefur borgin ítrekað þurft að taka leikskóla­húsnæði úr rekstri vegna raka­skemmda sem hefur hægt á getu sviðsins til að ná niður biðlistum í samræmi við væntingar. Þá hefur ekki tekist að full­manna leikskóla borgarinnar sem jafn­framt hefur leitt til þess að gildandi rekstrar­leyfi eru ekki fullnýtt. Mikilvægt er að áætlun um upp­byggingu og fjölgun leikskólarýma taki mið af þeirri stöðu,” segir enn fremur í ábendingum Fjár­mála- og áhættustýringar­sviðs.

Veikindi og mót­taka flótta­barna veldur halla

Grunnskólar borgarinnar fóru 654 milljónum fram úr fjár­heimildum. Launa­kostnaður þar nam 432 milljónum króna um­fram áætlun, þar af voru 313 milljónir vegna af­leysinga tengdra veikindum.

Heildar­veikinda­hlut­fall í grunnskólum mældist 7,4%, þar af 4,8% skammtíma­veikindi og 2,6% langtíma­veikindi.

Viðbótar­kostnaður vegna mötu­neyta, skóla­aksturs og húsnæðis­reksturs var einnig um­tals­verður.

Þá hafði mót­taka flótta­barna og hælis­leit­enda tölu­verð áhrif, sér­stak­lega á Kletta­skóla, sem skilaði 234 milljóna króna halla.

Kletta­skóli er sér­skóli á grunnskóla­stigi sem þjónar öllu landinu en um 45% nem­enda skólans eiga lög­heimili utan Reykja­víkur og skortir því tengdar tekjur í formi útsvars, sam­kvæmt greinar­gerð fag­sviða.

Lofa um­bótum í ár

Unnið hefur verið nýtt fjárút­hlutunar­líkan fyrir leikskóla sem tók gildi í ár.

Það miðar að því að bæta samræmi milli rekstrarþarfa og fjár­veitinga. Í líkaninu er gert ráð fyrir 1.970 milljóna króna hækkun á fjár­heimildum sviðsins. Enn sem komið er hefur sú upp­hæð ekki verið form­lega út­hlutuð, sam­kvæmt greinar­gerð.

Sam­hliða hefur borgin hert verk­lag um nýráðningar: allar ráðningar innan sviðsins fara nú í gegnum sér­staka ráðninga­nefnd sem metur þörf og fjár­hags­lega getu áður en staða er samþykkt. Mark­miðið er að auka gagnsæi og hemja óhóf­legan vöxt stöðu­gilda.

Sam­kvæmt reikningi borgarinnar og greinar­gerð fag­sviða er rekstur Skóla- og frí­stunda­sviðs enn undir tölu­verðu álagi álagi.

Halla­rekstur í leik- og grunnskólum er nú knúinn áfram af þremur megin­þáttum: viðvarandi veikindum og af­leysinga­kostnaði, aukinni þjónustuþörf barna með sérþarfir og skorti á raun­hæfri fjár­mögnun sérúrræða og húsnæðis.

Um­bótaá­form eru til staðar bæði í formi nýrra reiknilíkana og aukins aðhalds við ráðningar en raun­veru­legur árangur krefst þess að fjár­hags­rammar borgarinnar taki mið af breyttum veru­leika á vett­vangi, ekki síst í leikskólum þar sem húsnæði, mann­afli og rekstrar­kostnaður hafa þróast hraðar en tekju­viðmið og út­hlutun.