Þrátt fyrir að bygging nýrra íbúða sé langt frá því að uppfölla þörfina þá hefur dregið úr verðþrýstingi á fasteignamarkaði á síðustu mánuðum. Þetta kom fram í máli Jónasar Atla Gunnarssonar, hagfræðings hjá HMS, á fundi um stöðu íbúðauppbyggingar og framtíðarhorfa.
Benti Jónas Atli á að kaupsamningum hafi fækkað síðasta haust eftir að hafa fjölgað hratt fram að því vegna hinna svokölluðu Grindavíkuráhrifa. Sagðist hann meta stöðuna á markaðnum þannig að hann væri í jafnvægi, þ.e. að í dag væri hvorki seljenda- né kaupendamarkaður.
Jónas Atli sagði að vafalaust þættu einhverjum mótsagnarkennt að á sama tíma og íbúðaþörf væri mikil væru íbúðir að seljast hægt. Sagði hann íbúðaþörf og íbúðaeftirspurn ekki sama hlutinn. Eftirspurnin sveiflaðist eftir efnahagsaðstæðum, þar sem vextir, sem og lánatakmarkanir spiluðu stórt hlutverk. Íbúðaþörfin réðist hins vegar af lýðfræðilegum þáttum eins og mannfjölda, aldurssamsetningu og heimilisstærð.
Litlar ódýrar íbúðir eftirsóttar
Jónas Atli benti á að ódýrar íbúðir hafi selst hraðar en dýrar íbúðir. Frá október til desember hafi 27% íbúða undir 60 milljónum króna selst á yfirverði. Til samanburðar hafi um 10% íbúða á verðbilinu 60 til 90 milljónir selst á yfirverði á þessu tímabili.
Að sögn Jónasar Atla er ástæðan fyrir þessu háir vextir og þröng lánaskilyrði. Nefndi hann sem dæmir að mánaðarlegar tekjur fyrstu kaupenda þyrftu að ná einni milljón króna til að geta keypt 55 milljóna króna íbúð. Í ljósi þess að einungis 11% íbúða á sölu kostaði undir 55 milljónum krónum væri ekki ekki skrítið að eftirspurnin væri mikil.
Ekki byggt í takt við eftirspurn
Á fundi HMS kom fram að meirihluti nýrra fjölbýlisíbúða í sölu væru 80 til 110 fermetrar. Miðað við eftirspurn síðustu ára ætti hlutfall smærri og sömuleiðis stærri íbúða að vera hærra en það er í dag. Sem dæmi ætti hlutdeild 40 til 70 fermetra íbúða, af íbúðum í sölu, að vera 60% meiri en hún er í dag. Hlutdeild íbúða yfir 120 fermetrum ætti einnig að vera 25% meiri miðað við eftirspurn.
Að sögn Jónasar Atla hefur eftirspurn aukist frá áramótum samhliða lækkun vaxta á óverðtryggðum lánum. Sagði hann að miðað við árstíma hefðu margir kaupsamningar verið gerðir í janúar og febrúar. Ef vextri myndu halda áfram að lækka myndi greiðslugeta kaupenda aukast og ná til stærri hluta íbúða á sölu.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.