„Við ætlum að taka fram úr kapítalísku löndunum í framleiðslu á hvern mann, við ætlum að taka fram úr ríkustu kapítalísku löndunum í neyslu á hvern mann og við ætlum vera sjálfum okkur næg um framleiðslu á öllum neysluvörum.“
Nikita Khrushchev aðalritari sovéska kommúnistaflokksins 1953-1964
VAZ verksmiðjan, eða Bílaverksmiðjan við Volgu, var stofnuð árið 1966 sem hluti af þeirri stefnu sovéskra stjórnvalda að vera engu öðru ríki háð um neysluvörur. Sovéskir ráðamenn með Khruschev og Brezhnev í fararbroddi ætluðu að gera Sovétríkin ríkari en Vesturlöndin en skipta ágóðanum jafnt til allra. En sumir voru jafnari en aðrir og tilraunin mistókst endanlega árið 1991 þegar Sovétríkin féllu.
Það voru landráð að krefjast kosninga með þátttöku annarra flokka en Kommúnistaflokksins, en krafa um bætt húsnæði, tískuvarning, fólksbíla og svo framvegis var það ekki. Fram til 1960 var aðeins sovéska elítan sem hafði aðgang að fólksbílum. Sovéskur almenningur tengdi bíla við frelsi, völd og tækni.
Ladan var samvinna Vneshtorg og Ítala
Í fimm ára áætlun sovéskra stjórnvalda 1966-1970 var ákveðið að stofna bílaverksmiðju í samstarfi við erlendan bílaframleiðanda. Leitin að samstarfsaðila fór leynt og tók leyniþjónustan KGB þátt í henni. Sovétmenn skoðuðu marga bílaframleiðendur, svo sem Alfa Romeo, Lancia, Fiat, Rover, Opel, Mercedes-Benz, Ford, Porsche, Peugeot, Citroen og ameríska Nash.
Úr varð VAZ, sem var samstarf utanríkisviðskiptaráðuneytis Sovétríkjanna – Vneshtorg – og ítölsku Fiat verksmiðjanna í Tórínó – Fabbrica Italiana Automobili di Torino. Samningar voru undirritaðir í Moskvu 15. ágúst 1966. Í skýrslu sem unnin var fyrir bandaríska þingið í mars 1967 var byggingar kostnaður verksmiðjunnar áætlaður um 800 milljónir Bandaríkjadala. Það eru 7 milljarðar dala á núvirði, jafnvirði 930 milljarða króna. Til samanburðar kostaði bygging fyrstu verksmiðju Teslu í Fremont Kaliforníu í kringum 5 milljarða dala.

Verksmiðjan átti að framleiða um 600 þúsund bíla á ári. Starfsmenn áttu að verða 35-40 þúsund eða 10 þúsund færri en í sambærilegum verksmiðjum á Vesturlöndum. Raunin varð sú að um 96 þúsund starfsmenn unnu þar að jafnaði.
Fjallað var um sovésku Löduna og íslenska umboðsaðilann í Áramótum, áramótablaði Viðskiptablaðsins og Frjálsrar Verslunar. Áskrifendur geta lesið greinina í fullri lengd hér.