Á síðastliðnum þremur mánuðum hefur gengi Festi hækkað um 47% er hlutabréfaverð félagsins tók kipp eftir uppgjör þriðja ársfjórðungs.
Festi birti uppgjör þriðja ársfjórðungs í lok októbermánaðar og hækkaði um leið EBITDA-spá sína fyrir árið um 400 milljónir króna. Lyfja kom í rekstur félagsins 1. júlí og hafði mjög jákvæð áhrif á rekstur samstæðunnar.
EBITDA- fjórðungsins var 4,7 milljarðar og hækkar um 836 milljónir eða 21,4% milli ára en 9,3% án áhrifa Lyfju.
Samstæðan hagnaðist um rúma 2,2 milljarða á fjórðungnum eða 20,6% af framlegð vörusölu, sem er um 416 milljónum meira en árið áður.
Gengi Festi hefur hækkað um 25% eftir uppgjörið og dagslokagengi félagsins 288 krónur. Gengi Festi fyrir þremur mánuðum síðan var 196 krónur.
Hlutabréfaverð Play leiddi hækkanir á aðalmarkaði í dag er gengi flugfélagsins fór upp um 2% í örviðskiptum. Dagslokagengi Play var 0,99 krónur.
Gengi Icelandair hækkaði sömuleiðis um 2% og var dagslokagengi félagsins 1,30 krónur.
Mesta velta var með bréf Alvotech er gengi líftæknilyfjafélagsins hækkaði um 1% í 1,8 milljarða króna veltu.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,43% og var heildarvelta á markaði 6,3 milljarðar.