Hagnaður Orku­veitu Reykja­víkur á þriðja fjórðungi nam 796 milljónum króna sem er lækkun úr rúmum 2 milljörðum á sama tíma­bili í fyrra. Orkuveitan birti árshlutauppgjör í dag.

Af­koma OR á fyrstu níu mánuðum ársins nam 5,1 milljarði króna, sem samsvarar 44% aukningu frá sama tíma­bili í fyrra.

Munurinn á af­komu OR milli ára skýrist hvað helst af því að gagn­virðis­breytingar inn­byggðra af­leiða í raf­orkusölu­samningum voru jákvæðar um 566 milljónir á fyrri helmingi ársins en voru neikvæðar um 2.640 milljónir á sama tíma­bili í fyrra.

Af þeim sökum þre­faldaðist hagnaðurinn á fyrstu sex mánuðum ársins.

Veltu­fé frá rekstri fyrstu níu mánuði ársins nam 20,7 milljörðum króna og jókst um 5,2% milli ára.

Fjár­festingar í varan­legum rekstrar­fjár­munum námu 21,4 milljörðum króna á tíma­bilinu sem er 20% aukning frá sama tíma­bili ársins 2023.

Innan sam­stæðu OR eru Veitur, Orka náttúrunnar, Ljós­leiðarinn og Car­b­fix, auk móðurfélagsins.

Á fram­haldsaðal­fundi í lok júní var samþykkt að greiða eig­endum um 6 milljarða í arð á árinu en Reykja­víkur­borg á 93,5% hlut í sam­stæðunni.

Eig­endur fengu fjóra milljarða í júlí og einn milljarð um miðjan nóvember sem var færður meðal skammtíma­skulda í reikningum OR fyrir fyrstu níu mánuðina.

Gert er ráð fyrir að OR greiði eig­endum milljarð til viðbótar í desember ef niður­staða ársins verður í takt við áætlanir.

OR skuldar sam­tals 234 milljarða króna og var eigin­fjár­hlut­fall sam­stæðunnar 52,6% í lok tíma­bils.

Sævar Freyr Þráins­son for­stjóri Orku­veitunnar sér margt jákvætt fyrir þann nauð­syn­lega vöxt starf­seminnar sem boðaður var í fjár­hags­spá sam­stæðunnar í síðasta mánuði.

„Þjónusta Orku­veitunnar og dóttur­fyrir­tækjanna er traust. Það standa yfir fjölmörg verk­efni svo hún verði það um fyrir­sjáan­lega framtíð. Þeirra á meðal er aukin stafræn þjónusta, áfram­haldandi upp­bygging fyrir orku­skiptin og á dögunum fengum við góðar fréttir af öflun aukins vatns í hita­veitu Veitna á höfuð­borgar­svæðinu,“ segir Sævar Freyr.

„Allt styður þetta við að Orku­veitan sé afl­vaki sjálf­bærrar framtíðar, sem eru þau ein­kennis­orð sem við höfum sam­einast undir,“ segir Sævar Freyr.