Hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur á þriðja fjórðungi nam 796 milljónum króna sem er lækkun úr rúmum 2 milljörðum á sama tímabili í fyrra. Orkuveitan birti árshlutauppgjör í dag.
Afkoma OR á fyrstu níu mánuðum ársins nam 5,1 milljarði króna, sem samsvarar 44% aukningu frá sama tímabili í fyrra.
Munurinn á afkomu OR milli ára skýrist hvað helst af því að gagnvirðisbreytingar innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum voru jákvæðar um 566 milljónir á fyrri helmingi ársins en voru neikvæðar um 2.640 milljónir á sama tímabili í fyrra.
Af þeim sökum þrefaldaðist hagnaðurinn á fyrstu sex mánuðum ársins.
Veltufé frá rekstri fyrstu níu mánuði ársins nam 20,7 milljörðum króna og jókst um 5,2% milli ára.
Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 21,4 milljörðum króna á tímabilinu sem er 20% aukning frá sama tímabili ársins 2023.
Innan samstæðu OR eru Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix, auk móðurfélagsins.
Á framhaldsaðalfundi í lok júní var samþykkt að greiða eigendum um 6 milljarða í arð á árinu en Reykjavíkurborg á 93,5% hlut í samstæðunni.
Eigendur fengu fjóra milljarða í júlí og einn milljarð um miðjan nóvember sem var færður meðal skammtímaskulda í reikningum OR fyrir fyrstu níu mánuðina.
Gert er ráð fyrir að OR greiði eigendum milljarð til viðbótar í desember ef niðurstaða ársins verður í takt við áætlanir.
OR skuldar samtals 234 milljarða króna og var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 52,6% í lok tímabils.
Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar sér margt jákvætt fyrir þann nauðsynlega vöxt starfseminnar sem boðaður var í fjárhagsspá samstæðunnar í síðasta mánuði.
„Þjónusta Orkuveitunnar og dótturfyrirtækjanna er traust. Það standa yfir fjölmörg verkefni svo hún verði það um fyrirsjáanlega framtíð. Þeirra á meðal er aukin stafræn þjónusta, áframhaldandi uppbygging fyrir orkuskiptin og á dögunum fengum við góðar fréttir af öflun aukins vatns í hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sævar Freyr.
„Allt styður þetta við að Orkuveitan sé aflvaki sjálfbærrar framtíðar, sem eru þau einkennisorð sem við höfum sameinast undir,“ segir Sævar Freyr.