Samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eru rúmlega sex af hverjum tíu nýbyggingum sem auglýstar voru til sölu á fyrri helmingi ársins á höfuðborgarsvæðinu óseldar
HMS tekur fram að margar óseldar nýbyggingar séu staðsettar miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu en þar er að finna dýrustu nýbyggingarnar.
„Dýrustu nýbyggingarnar eru staðsettar á Seltjarnarnesi og í miðbæ Reykjavíkur eða í póstnúmerum 101, 102 og 170 en þar er meðalverð nýbygginga í kringum 115 m.kr. Um 60 prósent seldra nýbygginga hafa selst á auglýstu kaupverði, 14 prósent yfir auglýstu kaupverði og 26 prósent undir auglýstu kaupverði,” segir í fréttatilkynningu HMS.
Einungis 30 prósent af nýjum íbúðum sem auglýstar hafa verið til sölu á höfuðborgarsvæðinu á fyrri helmingi ársins hafa selst. HMS vann upplýsingarnar úr fasteignaauglýsingum og kaupskrá fasteigna.
Á tímabilinu janúar til júlí var 1.911 nýbygging auglýst til sölu, en þar af seldust 714 íbúðir. Á kortinu hér að neðan má sjá söluhlutfall nýbygginga eftir götuheitum, en þar sést að í flestum tilvikum eru einungis 25 til 50 prósent íbúða seldar í hverri götu.
HMS hefur sett upp gagnvirkt kort af seldum og óseldum nýbyggingum á höfuðborgarsvæðinu sem hægt er að nálgast hér.
Lægsta meðalverðið í Hafnarfirði
Samkvæmt útreikningum stofunnar er meðalverð seldra nýbygginga 88 milljónir króna á sama tíma og meðalverð auglýstra nýbygginga er 93 milljónir. Einungis 15 prósent allra nýbygginga eru seldar eða auglýstar undir 65 milljónum.
Í Hafnarfirði, eða póstnúmerinu 221, eru flestar nýbyggingar auglýstar til sölu, eða um 496 talsins, þar sem 133 íbúðir hafa verið seldar.
Að meðaltali er verð þessara íbúða 77 milljónir sem er eitt lægsta meðalverðið á meðal póstnúmera á höfuðborgarsvæðinu. Ódýrustu nýbyggingarnar má finna í Grafarholtinu þar sem meðalverðið er 65 milljónir.
Um 60 prósent seldra nýbygginga hafa selst á auglýstu kaupverði, 14 prósent yfir auglýstu kaupverði og 26 prósent undir auglýstu kaupverði.