Samkvæmt ítarlegri greiningu Stefnis á kauprétti og launum stjórnenda skráðra félaga á Íslandi er ljóst að mikil samsvörun er milli kaupréttarsamninga meðal stjórnenda, þrátt fyrir að rekstur og vöxtur félaganna séu afar ólíkur.
Greiningin bendir til þess að kaupréttarsamningar stjórnenda hérlendis séu nokkuð staðlaðir og virðast eiga rætur sínar að rekja til ráðgjafarfyrirtækja.
Félög í kauphöllinni sem eru með kaupréttaráætlanir eru almennt að úthluta kaupréttum sem nema um 2% af útistandandi hlutafé en þó eru einnig tilfallandi dæmi um hærra hlutfall.
Frá 2021 hefur notkun kauprétts aukist verulega hjá félögum í kauphöllinni. Um helmingur útistandandi kaupréttarsamninga er hins vegar verðlaus eða „out of the money“ líkt og það kallað.
Ef mögulegur kostnaður til hluthafa af kaupréttum sem voru úthlutaðir á árinu 2024, miðað við 12,5% árlega ávöxtun, er skoðaður er ljóst að þeir gætu leitt til hækkunar á heildarlaunakostnaði til forstjóra og framkvæmdastjóra.
Samkvæmt útreikningum Stefnis er um að ræða allt að 25–26% hækkun miðað við árið 2023 en vegna skorts á upplýsingagjöf þá er ekki alltaf hægt að slá því föstu hver hækkunin er þar sem ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig kaupréttarheimildum er dreift til stjórnenda.
Hagar og Festi eru hér í sérflokki. En í báðum tilfellum gæti kostnaðurinn til hluthafa farið yfir 250 milljónir króna, miðað við forsendu um 12,5% árlega ávöxtun hlutafjár á markaði.
Áskrifendur geta lesið ítarlega umfjöllun Viðskiptablaðsins um kauprétti stjórnenda í skráðum félögum hér.