Hluta­bréfa­verð Ís­lands­banka lækkaði um tæp 2% í 1,3 milljarða króna við­skiptum í dag.

Dagsloka­gengi bankans var 114 krónur á hlut, en eins og kunnugt er bauðst ein­stak­lingum að kaupa hluti í bankanum á 106,56 krónum í nýaf­stöðnu út­boði ríkisins.

Saman­lögð velta með bréf Ís­lands­banka síðustu tvo við­skipta­daga nemur nú yfir 2,5 milljörðum króna. Það sam­svarar um 32% af heildar­veltu kaup­hallarinnar á sama tíma­bili, eða nærri þriðjungi af allri veltunni.

Nokkur stór einstök viðskipti áttu sér stað með bréf bankans í dag. Strax við opnun kauphallarinnar var tilkynnt um 76,5 milljón króna viðskipti á genginu 113 krónur.

Stærstu einstöku viðskiptin fóru fram á slaginu hálf þrjú, þegar markaðir opnuðu í Bandaríkjunum, en þá skiptust 1,1 milljón hlutir um hendur á genginu 114,5 krónur. Það jafngildir tæplega 126 milljón króna viðskiptum.

Gengi Íslandsbanka er nú lægra en það var þegar útboðið hófst en dagslokagengi Íslandsbanka á mánudaginn fyrir útboðið var 114,5 krónur.

Útboðsgengið miðaði við meðalverð síðustu 15 viðskiptadaga.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins má rekja veltu síðustu daga bæði til fagfjárfesta sem fengu ekki úthlutað jafn mikið og vonir stóðu til í útboði ríkisins en einnig hafa vísitölusjóðir verið að auka vægi sitt í bankanum.

Alvotech leiddi lækkanir á markaði í dag er gengi félagsins fór niður um rúm 5% í 238 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi líftæknilyfjafélagsins var 1.260 krónur.

Gengi Kviku banka lækkaði um 4% í rúmlega hálfs milljarðs króna viðskiptum og lokaði í 14,4 krónum.

Hlutabréfaverð Arion banka lækkaði einnig og fór niður um 2% í 679 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi Arion banka var 168 krónur.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,38% í viðskiptum dagsins og lokaði í 2.619,84 stigum. Heildarvelta á markaði 4,8 milljarðar.