Þegar hlutabréfamarkaðir fóru á hliðina í kjölfar hertari tollaaðgerða Bandaríkjaforseta fyrr á árinu, ákváðu margir fjárfestar að færa eignir sínar í reiðufé og bíða óvissuna af sér.
Samkvæmt The Wall Street Journal voru þó fjölmargir sem ákváðu að standa af sér storminn.
Einn slíkur fjárfestir er hinn 25 ára gamli Luke Padgett.
Luke, sem er 25 ára gagnaverkfræðingur í Plano í Texas, kaus að gera ekki neitt og nú hefur sú ákvörðun skilað honum ávöxtun á ný.
„Fyrir venjulegt fólk endar það sjaldnast vel að reyna að tímasetja markaðinn,“ segir Padgett. „Ég nenni ekki einu sinni að reyna það.“
Lærði dýrmæta lexíu í námi
Luke missti einu sinni 1.000 dali á einum degi í áhættusömum valréttaviðskiptum á námsárum sínum en hann hefur síðan þá ákveðið að breyta um fjárfestingastefnu.
Í samtali við WSJ segist hann núna leggja áherslu á einfaldleika, góða dreifingu og þolinmæði.
Í dag er rúmlega 80% af fjárfestingasafni hans í sjóðnum Vanguard Total World Stock Index kauphallarsjóðnum, sem speglar þróun hlutabréfamarkaða um allan heim.
Þegar hlutabréfamarkaðir féllu í apríl í kjölfar nýrra tolla og vaxandi óvissu í samskiptum Bandaríkjanna og Kína ákvað hann ekki að hreyfa við eignarhlut sínum í sjóðnum.
Hann bætti ekki við eignum, en seldi heldur ekki.
Nú þegar markaðir hafa tekið við sér aftur, hefur Vanguard-sjóður hans hækkað um 4,6% frá 1. apríl.
„Ef þessi aðferð bregst alvarlega, þá eru vandamálin stærri en fjárfestingasafnið þitt,“ segir Luke við WSJ.
Samkvæmt WSJ er Padgett ekki sá eini sem sýndi yfirvegun í gegnum tollaóvissuna. Fjölmargir fjárfestar sem ákváðu að halda sínu striki hafa nú séð eignir sínar jafna sig og jafnvel hækka aftur.
Andrew Skillman, 60 ára fjárfestir í Nýju Mexíkó, lýsir því að hann hafi hreinlega hætt að skoða fjárfestingareikninga sína í tvær vikur í apríl. „Tímasetning markaðarins er einskis virði; það á enginn kristalskúlu,“ segir hann.
Þegar hann loks leit aftur á reikningana hafði eignasafnið hans náð sér að mestu.
Aaron Heisler, 51 árs íbúi San Diego, ákvað í fyrsta sinn á 25 ára ferli sínum að bregðast ekki við með tilviljanakenndum breytingum.
Hann hafði áður gert „viðbragðsbreytingar“ í kjölfar 9/11, fjármálakreppunnar 2008 og heimsfaraldursins 2020 en nú ákvað hann að halda sig við fyrir fram ákveðna eignadreifingu.
„Ég hef skuldbundið mig til að fylgja eignasamsetningu sem ég ætla ekki að víkja frá,“ segir Heisler, sem sér eftir að hafa ekki haft meira laust fé til að kaupa í lægðinni.