Samkeppniseftirlitið greiddi 96,7 milljónir króna til lögmannsstofunnar Lagastoðar á árinu 2024 eða að meðaltali 8 milljónir á mánuði, samkvæmt opnum reikningum ríkisins. Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er Lagastoð í raun eina lögmannsstofan á landinu sem Samkeppniseftirlitið leitar til.

Fjárframlög Samkeppniseftirlitsins fyrir árið námu 582 milljónum króna samkvæmt fjárlögum og runnu því 16,6% af öllum fjárframlögum embættisins beint til Lagastoðar í fyrra en greiðslurnar hafa aukist til muna á síðustu árum er eftirlitið heldur áfram að standa í fjölmörgum dómsmálum.

Greiðslur Samkeppniseftirlitsins til Lagastoðar eru í algjörum sérflokki í samræmi við lögmannskostnað annarra ríkisstofnana.

Ef stærstu lögmannsstofur landsins eru skoðaðar námu heildargreiðslur alls níu ríkisstofnana til Logos 25,8 milljónum á árinu. Lex lögmannsstofa veitti nítján ríkisstofnunum lögfræðiþjónustu í fyrra og námu heildargreiðslur 51,4 milljónum króna. Lögmannsstofan Juris veitti sex ríkisstofnunum þjónustu á árinu og námu heildargreiðslur til Juris 18,8 milljónum.

Lagastoð fékk í heildina 112 milljónir frá ríkisstofnunum á árinu en 96,7 milljónir komu frá Samkeppniseftirlitinu.

Greiðslur eftirlitsins til Lagastoðar nærri tvöfölduðust á milli ára en árið 2023 greiddi eftirlitið 52 milljónir til Lagastoðar. Heildarvelta Lagastoðar árið 2023 nam um 300 milljónum króna og er því töluverð velta stofnunarinnar komin til vegna þess að eftirlitið leitar einungis til þeirra.

Krefst frekari framlaga

Samhliða því að greiðslur SKE til Lagastoðar hafa nærri tvöfaldast á milli ára hefur Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, ítrekað kvartað yfir fjárframlögum til embættisins og krafist þess að fá meira fé.

Páll Gunnar sagði nýverið í viðtali við RÚV að stofnunin þyrfti að fá aukin fjárframlög til að geta rannsakað stjórnenda- og eigendatengsl í íslenskum sjávarútvegi.

Samkeppniseftirlitið hóf þá vegferð fyrir tilstilli Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra, en áfrýjunarnefnd samkeppnismála sagði verktakasamning milli ráðuneytis og eftirlitsins ólögmætan. Samkeppniseftirlitið hafði þar áður ákveðið að reyna að þvinga Brim til að láta eftirlitinu gögn í té með því að setja hæstu dagsektir í sögunni, 3,5 milljónir króna á dag, á sjávarútvegsfyrirtækið.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, sagði á þeim tíma að útgerðarfélagið hefði ekkert að fela en vegferðin væri þó með öllu ólögmæt þar sem ráðherra gat stýrt rannsókninni og nýtt sér rannsóknarheimildir SKE. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Samkeppniseftirlitið ekki skilað neinum gögnum til sjávarútvegsfyrirtækja sem stofnunin aflaði með ólögmætum hætti.

Ef marka má viðtal forstjóra SKE á RÚV ætlar Samkeppniseftirlitið að halda áfram athugun sinni á sjávarútveginum en það er þó spurning hvort verið sé að vinna með gögn sem aflað var með ólögmætum hætti. Gizur Bergsteinsson, hæstaréttarlögmaður og einn eigenda Lagastoðar, hefur séð um nær öll dómsmál Samkeppniseftirlitsins á síðustu árum en hann hefur reynslu af því að fara á eftir sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Hann var um tíma lögmaður Seðlabankans í gjaldeyrismálum bankans gegn Samherja og öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum.

Sú vegferð gegn sjávarútvegsfyrirtækjum landsins var án lagastoðar samkvæmt Hæstarétti Íslands og var Seðlabankanum gert að endurgreiða fyrirtækjunum sektirnar sem lagðar voru. Hvort sem Samkeppniseftirlitið nýtir gögnin sem eftirlitið fékk fyrir úrskurð áfrýjunarnefndar er rétt að benda á að öll þau gögn sem þarf til að greina sjávarútveginn eru uppi á borðum og aðgengileg.

Endanlegir eigendur eru skráðir hjá ríkisskattstjóra og getur Samkeppniseftirlitið, Fiskistofa og Fjármálaeftirlitið kallað eftir þeim gögnum. Allur kvóti er skráður á fiskiskip og öll skip eru skráð á eigendur hjá Siglingastofnun.

Áhyggjur Samkeppniseftirlitsins af samþjöppun í sjávarútvegi eru einnig sérstakar þar sem lög um stjórn fiskveiða fjalla um takmarkanir á aflahlutdeild einstakra útgerða í nytjastofnum og aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila.

Fiskistofa fer því með eftirlit með samþjöppun aflahlutdeilda en í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu kemur fram að stofnunin uppfylli eftirlit um samþjöppun aflaheimilda. Einnig kemur fram í skýrslunni að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, forveri matvælaráðuneytisins, taldi Fiskistofu fullfæra til þess að sinna eftirliti með samþjöppun í sjávarútvegi.

Samkvæmt síðasta ársreikningi Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2023 fór stofnunin 45 milljónir króna umfram fjárheimildir sínar á árinu og nú liggur fyrir að töluvert af fjármagni sem fór til stofnunarinnar í fyrra rann beint til Lagastoðar.

Það verður því að teljast varhugavert að veita stofnuninni aukafé til að hafa eftirlit með sjávarútvegsfyrirtækjum sem Fiskistofa nú þegar sinnir.

Neita að una niðurstöðum æðra setts stjórnvalds

Auknar greiðslur SKE til Lagastoðar eiga rætur sínar að rekja til þess að eftirlitið hefur verið í fjölmörgum dómsmálum síðastliðin ár. Stundum er embættið að taka til varna í viðfangsmiklum málum en til að mynda kærði Samskip ákvörðun eftirlitsins frá árinu 2023 um meint samráð við Eimskip til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og þó að mikil vinna fari fram innan embættisins er ekkert varhugavert við það að lögfræðiþjónusta eykst í tengslum við slík mál. Hins vegar er í fjölmörgum tilfellum um sjálfskaparvíti að ræða þar sem eftirlitið neitar að una ákvörðunum æðra setts stjórnvalds eða dómstóla.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um gengur málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins í berhögg við meginreglur íslensks stjórnsýsluréttar um að úrlausn æðra setts stjórnvalds sé bindandi fyrir lægra sett stjórnvald.

Hún er þó ekki einsdæmi, t.d. getur stjórnvald höfðað mál til að fá hnekkt niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál svo dæmi séu tekin. Í von um að leiðrétta þetta var lagt fram frumvarp árið 2019 um breytingar á samkeppnislögum sem myndi fella heimildina brott úr lögunum og með því yrði eftirlitinu gert að lúta niðurstöðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Samkeppniseftirlitið lagðist harðlega gegn breytingunni árið 2019 og benti á að á tímabilinu 2011 til 2019 hefði málskotinu einungis verið beitt í þremur tilvikum frá gildistöku. Nú hefur heimildin, ef gagnáfrýjun eftirlitsins er tekin með, verið nýtt jafn oft gegn Símanum einum og hún var nýtt á þessu átta ára tímabili.

Héraðsdómur felldi að fullu niður 500 milljóna króna sekt eftirlitsins á Símann. Samkeppniseftirlitið kærði til Landsréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms. SKE kærði síðan til Hæstaréttar sem verður fimmta stofnunin til að taka á málinu.

Orri Hauksson, fyrrum forstjóri Símans, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í fyrra að kostnaður fyrirtækisins hlypi á hundruðum milljóna króna sem á endanum endar hjá neytendum. Þá hafi málaferlin einnig hægt á vöruþróun hjá félaginu en skattgreiðendur enda síðan á að borga brúsann fyrir lögmannskostnað SKE og er því ljóst að Lagastoð græðir mest á öllum þessum málaferlum.