Ástralski vogunar­sjóðurinn Macqu­ari­e hefur eignast allan hlut í danska fjar­skipta­fyrir­tækinu TDC eftir að stærstu líf­eyris­sjóðir Dan­merkur PFA, PKA og ATP hafa selt hlut sinn í félaginu.

Yfir­takan markar enda­lok sam­eigin­legs eignar­halds sem hófst árið 2018, þegar Macqu­ari­e og sjóðirnir tóku TDC af markaði fyrir 40,8 milljarða danskra króna.

Líf­eyris­sjóðirnir viður­kenna að fjár­festingin hafi ekki þróast sam­kvæmt væntingum, en félagið hefur síðan þá tapað sam­tals 14,5 milljörðum danskra króna.

Skuldastaða TDC er jafn­framt orðin afar þung, eða alls 62,7 milljarðar danskra króna, þar af 28,3 milljarðar vegna ógreiddra vaxta af hlut­haf­aláni.

Í sam­eigin­legri yfir­lýsingu segjast sjóðirnir hafa tekið sam­eigin­lega ákvörðun um að selja, þar sem Macqu­ari­e sé nú betur til þess fallið að leiða næstu skref í þróun félagsins.

„Það er engin leynd yfir því að þetta fjár­festingar­til­felli þróaðist á annan veg en við höfðum gert okkur vonir um árið 2018,“ segir í yfir­lýsingu PFA, PKA og ATP.

Macqu­ari­e hefur víða sætt gagn­rýni fyrir um­deilda við­skipta­hætti.

Í Bret­landi hlaut sjóðurinn meðal annars viður­nefnið „vampíru­kengúran“, eftir að hafa hagnast veru­lega á sölu vatns­veitu­félagsins Thames Wa­ter árið 2017, með lág­marks­fjár­festingu, miklum arð­greiðslum og lítilli sam­félags­legri ábyrgð.

Danir þekkja sjóðinn einnig ágæt­lega en Macqu­ari­e fjár­festi í Kaup­manna­hafnar­flug­velli árið 2005. Sjóðurinn hagnaðist um 12 milljarða danskra króna á eignar­haldinu og flutti stóran hluta gróðans úr Evrópu skatt­frjálst.

Við­skiptin hafa vakið hörð viðbrögð meðal stjórn­mála­manna, sér­stak­lega á vinstri væng þingsins, þar sem TDC leikur lykil­hlut­verk í grunninn­viðum landsins.

Með kaupunum verður TDC al­farið í er­lendu eignar­haldi. Það hefur vakið áhyggjur á danska þinginu, þar sem TDC er talin skipa lykil­hlut­verk í grunninn­viðum landsins – þar með talið farsíma-, kopar- og ljós­leiðara­kerfum.

„Fjar­skipta­kerfið er lykilinn við það. Við verðum að tryggja örugga stjórnun og vernd. Nú er ekki rétti tíminn til að selja TDC til áhættu­fjár­festa með óljósa ábyrgð,“ segir Rosa Lund, tals­kona at­vinnumála hjá Enheds­listen, í sam­tali við Børsen.

Sigurd Agersnap, þing­maður Jafnaðar­manna­flokksins, kallar eftir því að at­vinnu­vegaráðherra skýri hver áhrif yfir­tökunnar kunna að verða á öryggis­hlut­verk TDC.

Hvorki danska ríkis­stjórnin né eftir­lits­yfir­völd vildu tjá sig um málið að svo stöddu.

Við­skiptin eru nú til skoðunar hjá dönskum stjórn­völdum og bíða samþykkis eftir­lits­yfir­valda. Gert er ráð fyrir að kaupin verði form­lega kláruð fyrir árs­lok 2025.

Sam­kvæmt heimildum Børsen voru það líf­eyris­sjóðirnir sjálfir sem hófu sölu­ferlið og töldu Macqu­ari­e betur til þess fallinn að stýra áfram­haldandi þróun TDC.

Eignar­hald TDC flyst nú al­farið úr landi, þrátt fyrir að ríkis­rekinn líf­eyris­sjóður ATP hafi árið 2018 varað við slíkri þróun.

Hvernig danskir ráða­menn bregðast við þessari yfir­töku gæti haft af­gerandi áhrif á framtíðar­stefnu varðandi inn­viði í eigu einka­aðila.