Ástralski vogunarsjóðurinn Macquarie hefur eignast allan hlut í danska fjarskiptafyrirtækinu TDC eftir að stærstu lífeyrissjóðir Danmerkur PFA, PKA og ATP hafa selt hlut sinn í félaginu.
Yfirtakan markar endalok sameiginlegs eignarhalds sem hófst árið 2018, þegar Macquarie og sjóðirnir tóku TDC af markaði fyrir 40,8 milljarða danskra króna.
Lífeyrissjóðirnir viðurkenna að fjárfestingin hafi ekki þróast samkvæmt væntingum, en félagið hefur síðan þá tapað samtals 14,5 milljörðum danskra króna.
Skuldastaða TDC er jafnframt orðin afar þung, eða alls 62,7 milljarðar danskra króna, þar af 28,3 milljarðar vegna ógreiddra vaxta af hluthafaláni.
Í sameiginlegri yfirlýsingu segjast sjóðirnir hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að selja, þar sem Macquarie sé nú betur til þess fallið að leiða næstu skref í þróun félagsins.
„Það er engin leynd yfir því að þetta fjárfestingartilfelli þróaðist á annan veg en við höfðum gert okkur vonir um árið 2018,“ segir í yfirlýsingu PFA, PKA og ATP.
Macquarie hefur víða sætt gagnrýni fyrir umdeilda viðskiptahætti.
Í Bretlandi hlaut sjóðurinn meðal annars viðurnefnið „vampírukengúran“, eftir að hafa hagnast verulega á sölu vatnsveitufélagsins Thames Water árið 2017, með lágmarksfjárfestingu, miklum arðgreiðslum og lítilli samfélagslegri ábyrgð.
Danir þekkja sjóðinn einnig ágætlega en Macquarie fjárfesti í Kaupmannahafnarflugvelli árið 2005. Sjóðurinn hagnaðist um 12 milljarða danskra króna á eignarhaldinu og flutti stóran hluta gróðans úr Evrópu skattfrjálst.
Viðskiptin hafa vakið hörð viðbrögð meðal stjórnmálamanna, sérstaklega á vinstri væng þingsins, þar sem TDC leikur lykilhlutverk í grunninnviðum landsins.
Með kaupunum verður TDC alfarið í erlendu eignarhaldi. Það hefur vakið áhyggjur á danska þinginu, þar sem TDC er talin skipa lykilhlutverk í grunninnviðum landsins – þar með talið farsíma-, kopar- og ljósleiðarakerfum.
„Fjarskiptakerfið er lykilinn við það. Við verðum að tryggja örugga stjórnun og vernd. Nú er ekki rétti tíminn til að selja TDC til áhættufjárfesta með óljósa ábyrgð,“ segir Rosa Lund, talskona atvinnumála hjá Enhedslisten, í samtali við Børsen.
Sigurd Agersnap, þingmaður Jafnaðarmannaflokksins, kallar eftir því að atvinnuvegaráðherra skýri hver áhrif yfirtökunnar kunna að verða á öryggishlutverk TDC.
Hvorki danska ríkisstjórnin né eftirlitsyfirvöld vildu tjá sig um málið að svo stöddu.
Viðskiptin eru nú til skoðunar hjá dönskum stjórnvöldum og bíða samþykkis eftirlitsyfirvalda. Gert er ráð fyrir að kaupin verði formlega kláruð fyrir árslok 2025.
Samkvæmt heimildum Børsen voru það lífeyrissjóðirnir sjálfir sem hófu söluferlið og töldu Macquarie betur til þess fallinn að stýra áframhaldandi þróun TDC.
Eignarhald TDC flyst nú alfarið úr landi, þrátt fyrir að ríkisrekinn lífeyrissjóður ATP hafi árið 2018 varað við slíkri þróun.
Hvernig danskir ráðamenn bregðast við þessari yfirtöku gæti haft afgerandi áhrif á framtíðarstefnu varðandi innviði í eigu einkaaðila.