Alþingi kom saman eftir jólahlé í síðustu viku, mánudaginn 22. janúar, en hlé var gert á þingfundum 16. desember 2023. Við upphaf þings var endurskoðuð þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar síðan gefin út með áætlunum um hvenær, hvort og hvaða mál verða lögð fram.
Brotthvarf ákveðinna mála vekur athygli en þar af má nefna sameiningu héraðsdómstóla, sem dómsmálaráðherra hafði áður stefnt á að leggja fram í október. Ráðherra hafði fyrir haustþing ákveðið að falla frá sameiningu sýslumannsembætta vegna gagnrýnisradda. Stofnanir ráðuneytisins verða því áfram 38 talsins.
Meðal mála sem hefur verið seinkað er frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra um auknar heimildir ríkissáttasemjara, stefnt var á að leggja það fram í janúar en það frestast fram í mars. Málið hefur tekið talsverðan tíma en stjórnarfrumvarp var afgreitt í ríkisstjórn á síðasta þingvetri. Líklegt er að frumvarpið komi ekki í tæka tíð komi til átaka í yfirstandandi kjaraviðræðum, sem telja má líklegt út frá yfirlýsingum verkalýðshreyfingarinnar sem ákvað að vísa kjaradeilunni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara í síðustu viku.
Þá hefur frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 við EES-samninginn, sem til stóð að leggja fram í október, verið seinkað og nú stendur til að leggja það fram á þingi í lok febrúar. Frumvarpið hefur áður verið lagt fram en hefur ekki náð fram að ganga. Mikil andstaða er við frumvarpið innan þingsins en til stóð samkvæmt nýrri skrá að utanríkisráðherra myndi kynna skýrslu vegna málsins í síðustu viku.
Í einhverjum tilvikum hefur frumvörpum verið skipt upp í tvö frumvörp og í öðrum hafa nokkur frumvörp verið sameinuð í einu. Meðal þeirra frumvarpa sem hefur verið skipt upp er frumvarp dómsmálaráðherra um vefverslun með áfengi og framleiðslu áfengis til einkaneyslu, sem átti að koma fram í mars. Nú er stefnt á að leggja fram frumvarp um heimabruggun í lok janúar en frumvarp um vefverslun með áfengi, sem er umdeildara mál, er á dagskrá um miðjan febrúar.
Af nýjum frumvörpum vekja helst athygli tvö frumvörp sem menningar- og viðskiptaráðherra hyggst leggja fram í lok mars. Annars vegar er um að ræða stofnun nýrrar Þjóðaróperu en það vekur furðu á sama tíma og reynt er að fækka stofnunum hins opinbera. Hins vegar er um að ræða frumvarp um breytingu á veltumörkum tilkynningaskyldra samruna og samrunagjaldi en Samkeppniseftirlitið hefur undanfarið kvartað sáran yfir skorti á fjármagni.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.