Heildarupphæð bættra brunatjóna árið 2023 nam 6,4 milljörðum króna og var tæplega þrefalt hærri en árið 2022. Tryggingarfélög hafa ekki þurft að greiða jafnháa upphæð vegna brunatjóna á einu ári frá árinu 2000.

Þetta kemur fram í upplýsingum frá tryggingafélögum sem HMS tekur árlega saman.

Umfang brunatjóna á síðasta ári var töluvert meira en meðaltal síðustu ára, sem var um helmingi minna. Bætt brunatjón hafa hins vegar ekki verið yfir 5 milljörðum króna á einu ári í tvo áratugi og leita þarf aftur til ársins 2000 til að finna ár þar sem umfang brunatjóna var meira en í fyrra.

Á síðustu fjórum áratugum má þá einungis finna eitt annað ár þar sem heildarupphæð bættra brunatjóna fór yfir sex milljarða, en það var árið 1989.