Hlutabréfamarkaðurinn rétti verulega úr kútnum á síðasta ári eftir brösug tvö ár þar á undan. OMXI GI, arðgreiðsluleiðrétt heildarvísitala aðalmarkaðar Kauphallarinnar, hækkaði um 14,7% á árinu 2024, þar af um 12,5% á fjórða ársfjórðungi.
Könnun Viðskiptablaðsins meðal markaðsaðila, sem birt var í síðasta tölublaði, bar þess merki að svarendur telji að markaðurinn muni áfram gefa vel af sér á komandi ári. Meirihlutinn á þannig von á meira en 15% hækkun á árinu. Meðalspá markaðsaðilanna er að vísitalan hækki um 16,7% á árinu.
Alexander Jensen Hjálmarsson, stofnandi Akkurs, segir ljóst að hve mikill peningur leiti á markaðinn ráðist að miklu leyti af því hversu mikið vextir munu lækka á árinu. Flestir á markaðnum geri ráð fyrir vaxtalækkun upp á 150-250 punkta. Að öðru leyti horfi árið vel við og uppgjör flestra skráðra félaga litið þokkalega út undanfarið.
„Þó fyrir utan sjávarútveginn þar sem uppgjörin hafa verið þung. Ef það verður áfram engin loðnuveiði þá eru blikur á lofti um að komandi ár verði þungt hjá sjávarútveginum líkt og það síðasta, en vonandi ekki verra.“
„Það er spurning með vaxtarfélögin, og e.t.v. öðruvísi lögmál sem gilda þar. Önnur félög eru í fínum málum og flæði inn á markaðinn undirstrikar það. Þar að auki mun Marel-peningurinn hafa jákvæð áhrif á flæði inn á markaðinn,“ bætir Alexander við.
Hann segir mikilvægt að almenningur bíði ekki eftir því að vaxtalækkunarferlið taki enda og færi sig þá úr innlánum í hlutabréf. Markaðurinn sé framsýnn og bregðist ekki við eftir á.
„Helsti mótvindurinn í fyrra voru háir vextir og há verðbólga framan af ári. Í haust þegar verðbólgan byrjaði loks að lækka af ráði og við fengum vaxtalækkanir, þó að engin stór skref væru tekin, þá hafði það áhrif um leið. Enda er markaðurinn framsýnn og þegar hann sér fram á að vextir muni halda áfram að lækka þá fara menn að verðleggja það inn í reiknidæmið.
Það þýðir ekki að bíða þangað til að vextir eru búnir að lækka. Í því samhengi tel ég helstu áhættuna fyrir almenning vera að bíða eftir því að vextir verði komnir niður í 6% og færa sig þá yfir í hlutabréf.“
Lífeyrissjóðir draga úr vægi innlendra hlutabréfa
Flestir af stærstu lífeyrissjóðum landsins áforma á komandi ári að draga úr vægi innlendra hlutabréfa í eignasafni sínu.
Alexander á þó von á því að svigrúm myndist á næstunni fyrir lífeyrissjóði að bæta við sig innlendum hlutabréfum.
„Það þarf að horfa til þess að Marel var líklega stærsta einstaka hlutabréfaeignin hjá flestum lífeyrissjóðum og mér sýnist hún hafa verið u.þ.b. 1,5-3,0% af eignasafni flestra sjóða en er nú flokkað sem erlend eign. Það þýðir að þó að einstaka sjóðir hafi minnkað markmið sitt um eign í innlendum hlutabréfum örlítið eru þeir líklega flestir hverjir undir markmiði eftir þessa breytingu.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.