Útlit er fyrir að heildarfjárfesting Þórkötlu í húsnæði í Grindavík verði allt að 75 milljarður í heildina eða um 14 milljörðum króna meiri en áætlað var við setningu laganna um úrræðið. Aukinn kostnaður skýrist að mestu af hækkun brunabótamats á eignum í bænum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þórkötlu en fulltrúar fasteignafélagsins eru nú í óða önn að taka við eignum í Grindavík af seljendum þeirra. Fram kemur að Þórkatla muni taka á móti 30 eigum í þessari viku og 170 til viðbótar í næstu viku.
„Stór hluti eignanna er í góðu ástandi. Það er töluvert um nýleg vel byggð hús í Grindavík sem sloppið hafa vel frá hamförunum hingað til. Svo eru vissulega hús inn á milli sem þarfnast lagfæringa og einhver hús sem eru mjög illa farin og eiga sér litla framtíð. Við munum þurfa að vinna þétt með Náttúruhamfaratryggingu Íslands við að skoða tryggingarstöðu Þórkötlu vegna þeirra eigna sem eru illa farnar,“ segir Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu.
Almennt viðhald verður í lágmarki á meðan óvissa ríkir um yfirvofandi jarðhræringar og mun félagið mun á þeim tíma leggja áherslu á að fyrirbyggja frekari skemmdir.
„Þó flestir séu áhugasamir um að viðhalda byggð í bænum þá hefur ástandið tekið á fólk og því finnst gott að vera að klára þetta ferli. Það eru svo náttúruöflin sem stjórna framhaldinu en það er alltaf markmið okkar að fá sem flesta Grindvíkinga til að kaupa eignir sína til baka síðar meir. Það er mikilvægur hluti af því að styðja við framþróun Grindavíkur til framtíðar,“ segir Örn Viðar.