Ölgerðin fékk nýlega afhenta þrjá metanbíla frá Heklu, af gerðinni Volkswagen Caddy EcoFuel og Volkswagen Touran.

Eldsneytið á metanbílana er unnið úr sorpi á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu.

Þar kemur fram að metanbílar Ölgerðarinnar verða notaðar af sölumönnum fyrirtækisins í Reykjavík,  en í tilkynningunni segir að mengun af metanbíl er margfalt minni en af dísil- eða bensínbílum.

„Til dæmis þarf hátt í 120 metanbíla til að menga jafnmikið og einn fólksbíll, en eldsneytiskostnaður á metanbíl er um 50% lægri en á venjulegum bíl. Verð metanbíla er sambærilegt og á hefðbundnum bílum,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að Ölgerðin hafi tekið þá ákvörðun að kaupa metanbíla í samræmi við þá stefnu að starfa í sátt við umhverfið.

„Ein leið til þess er að minnka orkunotkun og mengun við framleiðslu og dreifingu á vörum Ölgerðarinnar og að nota efni og rekstrarvörur sem eru umhverfisvænar,“ segir í tilkynningunni.

„Metanbíll gefur frá sér um 20% minni koltvísýring, en sá koltvísýringur er auk þess ekki leystur úr viðjum jarðar, eins og þegar bensín eða olía brennur og því ekki um sambærilega mengun að ræða. Metanbíll gefur auk þess frá sér  um 90% minni kolsýring og 60% minna köfnunarefnisoxíð. Sót og ryk úr metanvél er síðan um 80% minna en frá sambærilegri dísilvél og vélarhljóð frá metanbíl er einnig mun lágværara. Umhverfið nýtur að sjálfsögðu góðs af því að minna eldsneyti þarf að flytja inn til landsins og minna er brennt af mengandi jarðefnaeldsneyti.“   Í tilkynningunni kemur fram að Hekla hefur flutt hátt í eitt hundrað metanknúnar Volkswagen bifreiðar til landsins og hefur þeim fjölgað hratt á götunum undanfarna mánuði.

Á annað hundrað metanbifreiðar eru skráðar hér á landi og eru langflestar þeirra af gerðinni Volkswagen.

„Mikil framþróun hefur átt sér stað í hönnun og framleiðslu metanbíla síðustu misserin og með hverri árgerð lengist sú vegalengd sem unnt er að aka á metan. Snemma á næsta ári kynnir Hekla til dæmis metanbílinn VW Passat EcoFuel sem dregur 420 kílómetra á metan og auk þess yfir 400 kílómetra á hefðbundnu eldsneyti,“ segir í tilkynningunni.