Hluta­bréfa­verð Nvidia og Meta tóku væna dýfu á markaði í gær og ýttu þannig Nas­daq vísi­tölunni, þar sem tækni­fyrir­tækin eru þunga­miðjan, niður um 2,8% í gær, sem er mesta lækkun ársins.

S&P 500 vísi­talan féll um 1,4% á meðan Dow Jones hækkaði um 0,6% en leita þarf aftur til ársins 1999 til að finna dag sem S&P 500 lækkaði um meira en 1% meðan Dow Jones hækkaði sam­kvæmt The Wall Street Journal.

Donald Trump er sagður bera að hluta til á­byrgð á lækkunum gær­dagsins en í við­tali við Bloom­berg sagðist hann vera afar ó­sáttur með yfir­burði TSMC frá Taí­van á ör­flögu­markaðinum en TSMC er stærsti ör­flögu­fram­leiðandi heimsins.

Trump sagði réttast að Taí­van greiði Banda­ríkjunum fyrir að verja landið gegn mögu­legri á­sókn frá Kína.

Gengi TSMC féll á markaði í Taí­van en óttinn um al­þjóð­leg átök á ör­flögu­markaði smitaði út frá sér. Gengi Nvidia lækkaði um 6,6% og Qu­alcomm um 8,6% í gær.

Ör­flögu­kaup­hallar­sjóður iS­hares lækkaði um 7,1%.