Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er lítt hrifinn af hugmyndinni um upptöku annars gjaldmiðils. Kostir íslensku krónunnar hafi sannað sig sé horft m.a. til lífskjara, kaupmáttar launa, atvinnustigs og tegundir starfa á Íslandi.
„Okkur er að takast, á mælikvarða lífsgæða, að gera frábæra hluti á grundvelli þess að vera með eigin gjaldmiðil,“ segir Bjarni í nýjasta hlaðvarpsþætti Chat after Dark.
Hann segir Sjálfstæðisflokkinn hafa velt fyrir sér valkostum í gjaldmiðlamálum á sínum tíma. Margir hafi gaman að því að rifja upp auglýsingu Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2009 þar sem upptaka evru án aðildar í Evrópusambandið (ESB) er lögð til. Á þessum tíma hafi mikil umræða verið um inngöngu í ESB og að markmið auglýsingarinnar hafi einfaldlega verið að benda á að hægt væri að taka upp evruna án inngöngu.
„Við höfum bara lært svo margt og það hefur svo margt gengið á í millitíðinni. Við náðum alveg að losa okkur út úr höftunum án þess að taka upp annan gjaldmiðil. Því var haldið fram á sínum tíma að það væri ekki hægt. Það voru ein helstu rökin fyrir því að við þyrftum að ganga í ESB og taka upp evru, það væri skjótasta leiðin úr höftunum o.s.frv.
Þetta reyndist allt saman rangt og þegar uppi var staðið þá var það sjálfstæður gjaldmiðill sem hjálpaði okkur út úr fjármálakrísunni, þ.e. falli bankanna,“ segir Bjarni og bætir við að sjálfstæður gjaldmiðill hafi í raun verið forsenda þess að hægt hafi verið afnema gjaldeyrishöftin.
Hagsmunir alþjóðlegra fyrirtækja ekki sömu og almennings
Bjarni telur jafnframt afar líklegt að ef evran hefði verið tekin upp, þá hefði íslenska ríkið verið neytt til þess að gangast í ábyrgðir fyrir alls konar evruskuldir í kjölfar fjármálahrunsins.
Auk þess sé hætta fólgin í tengingu inn á stór gjaldmiðilssvæði með upptöku tiltekins gjaldmiðils ef íslenska hagkerfið sveiflast úr takti við almenna þróun á svæðinu. Aðlögunin færi sennilega fram í gegnum vinnumarkaðinn, jafnvel með miklu atvinnuleysi.
„Er hægt að sjá einhverja kosti fyrir alþjóðleg fyrirtæki að vera inn á stærra myntsvæði, auðvitað er alveg hægt að sjá það. En það þýðir ekki endilega að það sé almennt betri valkostur fyrir íslenskan almenning að taka upp þá mynt sem helst myndi henta stórum fyrirtækjum, það bara er ekki þannig.
Það vantar eitthvað í röksemdarfærsluna, þegar okkur er að takast á mælikvarða lífsgæða að skapa mjög sterka stöðu fyrir íslensk heimili, að halda því fram að allt myndi verða miklu betra með upptöku nýs gjaldmiðils. Þetta bara stenst ekki skoðun.“
Bjarni segist því ekkert vera að velta upptöku annars gjaldmiðils fyrir sér í dag. Eftir að hafa tekið þátt í að setja lög um opinber fjármál og kynnt til sögunnar fjármálareglur fyrir ríkissjóð sé hann „miklu meira á hinni línunni“.
„Þá finnst mér bara umræðan um upptöku annars gjaldmiðils vera flótti frá því að vilja bera ábyrgð á því sem er grundvöllur að stöðugleika. Það er bara aldrei nein einföld leið í átt að stöðugleika.“
Hefur enn trú á lágvaxtaumhverfi hér
Í aðdraganda síðustu þingkosninga, þegar vextir á Íslandi voru við sögulegt lágmark, ræddi Bjarni um að með stöðugleika og ábyrgum ríkisfjármálum mætti ná fram lægra vaxtastigi á Íslandi til lengri tíma. Þrátt fyrir að vextir hafa hækkað talsvert síðustu mánuðum telur Bjarni að þetta hafi ekki verið draumsýn.
„Nú gefur aðeins á bátinn í augnablikinu. Það þýðir ekki að við séum einhvern veginn komin út af sporinu í gamla farið,“ segir Bjarni.
„Ég held að þetta verði á endanum alltaf blanda af stöðunni á alþjóðamörkuðum og því hvað við erum að gera hérna heima fyrir. Mín pólítik hefur nú snúist að verulegu leyti um að auka agann í opinberum fjármálum. Að við séum tilbúin til þess að horfast í augu við það að það þarf að axla ábyrgð á því að reka eigin mynt og að stýra þessu hagkerfi.“
Það felist m.a. í að vera með lágar skuldir vegna tiltölulega fábrotins hagkerfis sem útsett er fyrir miklum hagsveiflum. Mikilvægt sé því að fjölga tekjustoðum hagkerfisins. Í tilviki ríkissjóðs nefnir hann fjármálareglurnar sem hann beitti sér fyrir. Þá sé einnig mikilvægt að fá vinnumarkaðinn með sér í lið og að hann hagi seglum eftir vindum.
„Öllu máli skiptir að við séum tilbúin til þess að gera það sem þarf til þess að stuðla að stöðugleika í efnahagsmálum. Til lengri tíma, þá er það í raun og veru áskriftin að því að vextir séu hóflegri heldur en hefur verið hérna sögulega og verðbólga þá að jafnaði lægri. Það eru auðvitað alls konar áskoranir sem fylgja því að halda úti smárri fljótandi mynt en þetta er ekkert þannig að það sé ekki hægt.“
Bjarni ræðir um gjaldmiðlamál frá 1:22:08-1:27:00.