Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir ýmislegt benda til þess að aðalfundir séu ekki lengur nægilega skilvirkur vettvangur fyrir samskipti milli fjárfesta annars vegar og stjórnir og stjórnendur fyrirtækja hins vegar.

„Stundum er það þannig að ákvarðanir um málefni sem eru tekin til skoðunar eða umfjöllunar á hluthafafundum, þær eru teknar einfaldlega áður en fólk kemur á fundina. Það sem gerist þá er að umræðan á fundunum hættir að skipta máli,“ sagði Finnur á málstofu Landssamtaka lífeyrissjóða í síðustu viku.

Það sjáist til að mynda á því þegar það stendur til að fjalla um einhver viðkvæm og umdeild málefni. Þá viti stjórnarformenn og aðrir stjórnarmenn að þeir þurfi að koma málflutningi sínum á framfæri fyrir hluthafafundinn sjálfan.

„Allt sem fer fram á fundinum, það þarf ekki að vera að það skipti neinu máli vegna þess að niðurstaðan er komin.“

Finnur sagði að í eðli sínu ættu aðalfundir og aðrir hluthafafundir að vera vettvangur fyrir umræðu um málefni félaga. Farvegurinn fyrir skoðanir og fyrirætlanir hluthafa sé í gegnum stjórn og þaðan til framkvæmdastjórna fyrirtækja.

„Þannig á það að vera. Svo getur maður velt því upp, er þetta skilvirkasti farvegurinn sem hefur verið skilgreindur og erum við að fara eftir honum í öllum tilvikum?“

Finnur sagði að þessi spurning ætti kannski sérstaklega við hlutabréfamarkaðinn hér á landi í ljósi þess hversu stór eignarhlutur stofnanafjárfesta er í skráðum félögum. Hann benti á að lífeyrissjóðir eiga ríflega 75% beinan hlut í Högum.

Aðspurður sagði hann algengt að tilteknar nefndir eða framkvæmdastjórnir hluthafa hafi tekið ákvarðanir um hvernig greiða eigi atkvæði á hluthafafundi fyrir fundinn sjálfan.

„Það er náttúrulega mikið að gera, ég hef skilning á því að þeir sem formlega fara með ákvarðanatöku hjá stórum hluthöfum geti ekki mætt á alla fundi. Það er leyst með því að ákveða fyrir fram og senda fulltrúa á fundinn með tiltekinni niðurstöðu.

En það er nú ekkert langt síðan að það kom upp sú staða að það rofnaði símasamband inni á fundi hjá stóru félagi. Þessi fulltrúi, öndvegiseinstaklingur, hafði ekki samband við móðurstöðina. Þar af leiðandi var í raun og veru hans atkvæði og skoðanir óvirkar.“

Spyr hvort fjölga eigi hluthafafundum

Hrund Rudolfsdóttir, stjórnarmaður og formaður starfskjaranefnda Skaga og Nova, var með erindi á málstofunni um SRD II tilskipunina og hvaða auknar skyldur hún hefur í för með sér á skráð fyrirtæki og fjárfesta.

Hún sagði rauða þráðinn í þessum reglugerðarbreytingum vera að það sé verið að setja auknar skyldur á skráð fyrirtæki en ekki síður fjárfesta. Brussel væri í raun að kalla hluthafa mun nær stjórnarborðinu en áður. Hrund sagði að það væri mun erfiðara að vera hlutlaus fjárfestir í dag, a.m.k. hvað varðar ákveðna þætti eins og starfskjaramál.

Í ljósi þessa sé mikilvægt að huga að þeim vettvangi sem samskipti fjárfesta og stjórnar fara fram. Það geti komið upp aðstæður þar sem þrír stórir hluthafar eru með ólíkar skoðanir og vilji mögulega leggja fram tillögu í samræmi við sína stefnu.

„Þannig að ég á von á því að hluthafa- og aðalfundir verði mun líflegri og að við munum kannski sjá fleiri tillögur til að kjósa um. Svo kannski bjóðum við bara oftar til hluthafafundar út af því að þetta eru orðin fleiri málefni sem þarf að taka afstöðu til.“

Hrund viðraði einnig þeirri hugmynd hvort að nýta ætti kynningarfundi skráðra félaga í kjölfar uppgjöra „sem ég held að við séum öll sammála um að eru afskaplega daufir og leiðinlegir“ sem vettvang fyrir umræður milli hluthafa og stjórna. Sem dæmi gætu verið teknir umræðufundir eftir hálfsársuppgjör þar sem ekki væru teknar bindandi ákvarðanir heldur væri markmiðið að þar fari fram samtal.

„Þetta verður að vera hópsamtal ef það þarf að tala við fullt af hluthöfum sem hver hefur sína skoðun. Þeir tala kannski ekki innbyrðis og þá verður þetta ansi snúið. Við þurfum aðeins að hugsa það hvernig við miðlum þessu samtali.“

Hrund Rudolfsdóttir, fyrrverandi forstjóri Veritas og stjórnarmaður Skaga og Nova.
© Eva Björk Ægisdóttir (Eva Björk )