Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hyggst skipa sérstakan starfshóp hvers hlutverk verður að skoða leiðir til rýmkunar ákvæða laga er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku, og auka skilvirkni með einföldun ferla.
Hópurinn mun sérstaklega skoða málefni þeirra sem hafa ríkisfang utan EES-svæðisins, en það hefur hingað til verið einstaklega torsótt fyrir þann hóp að afla sér atvinnuréttinda hér á landi.
Fyrirséð er að hlutdeild útlendinga á íslenskum vinnumarkaði þurfi að aukast á næstu árum, ætli þjóðin að standa undir væntum hagvexti. Þá skiptir máli að bæta það ferli sem innflytjendur ganga í gegnum til að fá réttindi og menntun viðurkennda hér á landi.
Hér á landi snúa lög um atvinnuréttindi útlendinga aðallega að fólki sem kemur til landsins frá löndum utan EES-svæðisins, en innan EES er íslenskur vinnumarkaður opinn þeim rúmlega 500 milljónum íbúa sem búa innan svæðisins.
Almennt séð er heimilt að veita fólki sem kemur til landsins frá löndum utan EES tímabundið atvinnuleyfi ef starfsfólk fæst hvorki á innlendum vinnumarkaði né innan EES eða ef sérstakar ástæður mæla með leyfisveitingu.
Þá þarf að liggja fyrir umsögn stéttarfélags eða landssambands launafólks í hlutaðeigandi starfsgrein og skal umsögnin liggja fyrir innan sjö daga frá móttöku afrits umsóknar. Fyrir liggi undirritaður ráðningarsamningur til tiltekins tíma eða vegna verkefnis milli atvinnurekanda og útlendings sem tryggi útlendingnum laun og önnur kjör í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga.
Að auki þarf að liggja fyrir að atvinnurekandi hafi sjúkratryggt starfsmanninn og ábyrgist heimflutning hans ef viðkomandi verður óvinnufær um lengri tíma eða ráðningunni er slitið vegna ástæðna sem starfsmaðurinn á ekki sök á.
Hugsi yfir tvöföldu kerfi
Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, sem starfar hjá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), segir hugmyndafræðina að baki því að stéttarfélögin skili inn umsögn vegna umsókna um tímabundin atvinnuleyfi snúa að því að ganga úr skugga um að ráðningasamningar standist kröfur, lög og kjarasamninga. Þrátt fyrir að samningur líti vel út á yfirborðinu getur hins vegar komið fyrir að óprúttnir aðilar fari á svig við reglurnar.
„Sem dæmi höfum við heyrt sögur frá innflytjendum sem hafi gert ráðningasamninga við atvinnurekendur sem standist skoðun. Atvinnurekendur fylgi þeim síðan út í næsta hraðbanka og rukki fyrir ýmislegt,“ en það er þá í raun til lækkunar launa þeirra.
Hún segir ASÍ vera hugsi yfir því tvöfalda kerfi sem viðgangist á Ísland þar sem sumum dvalarleyfum fylgi atvinnuleyfi en öðrum ekki og hefur sambandið spurt stjórnvöld út í gildi þessa kerfis.
„Þau sem þurfa að fara þá leið að fá atvinnuleyfi og sannarlega komast í löglega vinnu eru þá tengd einum atvinnurekenda og eru upp á hans náð og miskunn komin. Þetta kerfi hefur því gert berskjaldaða hópa enn berskjaldaðri.“ Það má því má spyrja sig að því hverra hagsmuna reglunum sé ætlað að gæta.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 15. desember.