Fraser-stofnunin (e. Fraser Institute) í Kanada hefur birt niðurstöður alþjóðlegrar samanburðarrannsóknar á efnahagslegu frelsi í heiminum og situr Ísland í 14. sæti annað árið í röð.
Rannsóknin nær til 165 landa og er efnahagslegt frelsi mest í Hong Kong þar á eftir kemur Singapúr, svo Sviss og Nýja-Sjáland. Þá koma Bandaríkin, Danmörk, Írland, Kanada, Ástralía, og Lúxemborg í sætunum frá 5 til 10.
Ísland sat í 11. sæti fyrir tveimur árum síðan samkvæmt niðurstöðunum. Eru hlutfallslega mikil umsvif hins opinbera ástæða þess að Ísland raðast neðar en þessi lönd á lista.
Í tilkynningu frá Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál segir að staða Íslands helgist einkum af sterkum lagalegum og pólitískum innviðum, ríkri vernd eignarréttar, en íþyngjandi regluverki í viðskiptaumhverfi fyrirtækja og á vinnumarkaði í samanburði við önnur lönd.
Ef einkunnir Íslands í lykilflokkum, sem eru á skalanum 1-10 þar sem hærri tala bendir til meira efnahagslegs frelsis, eru skoðaðar má sjá hversu gríðarlegt umfang hins opinbera er hérlendis.
Ísland hækkar úr 5,98 í 6,03 þegar kemur að umfangi hins opinbera og er Íslands í 120. sæti.
Ísland fær 8,77 í einkunn þegar kemur að lagaumhverfi og vernd eignaréttar og situr í 6. sæti.
Ísland er í 35. sæti þegar kemur að aðgangi að traustum gjaldmiðli, 42. sæti í frelsi til alþjóðaviðskipta og 32. sæti þegar kemur að reglubyrði.
Ísland er ágætt í norrænum samanburði
Sé litið til stærstu hagkerfanna eru helstu niðurstöður: Bandaríkin í 5. sæti, Japan í 11. sæti, Þýskaland er í 16. sæti, Frakkland í 36. sæti, Ítalía í 51. sæti, Mexíkó í 65. sæti, Indland í 84. sæti, Brasilía í 85. sæti, Kína í 104. sæti og Rússland í 119. sæti.
Botn listans verma svo Sýrland, Súdan, Simbabve og Venesúela en hafa þarf í huga að harðstjórnarríki eins og Norður-Kórea og Kúba eru ekki með í rannsókninni vegna skorts á gögnum.
Hornsteinar efnahagslegs frelsis Samkvæmt skýrslunni eru hornsteinar efnahagslegs frelsis valfrelsi einstaklinga, viðskiptafrelsi, samkeppnisfrelsi, sterkir lagalegir innviðir, aðgangur að traustum gjaldmiðli og vernd eignarréttar.
Vísitala atvinnufrelsis (index of economic freedom) ræðst af fimm meginsviðum:
- Umfangi opinbers reksturs, skatta og fyrirtækja.
- Lagalegu umhverfi og friðhelgi eignarréttar.
- Aðgangi að traustum peningum.
- • Frelsi og öryggi til alþjóðlegra viðskipta.
- Reglubyrði á fjármagns- og vinnumarkaði og um fyrirtæki.
Innan þessara fimm meginsviða eru síðan 25 þættir en sumir þeirra eru síðan aðgreindir í enn frekari undirþætti.
Í heildina er vísitalan því sett saman úr 45 aðgreindum breytum. Hvert svið, þáttur og undirþáttur eru síðan mæld á kvarða 0 til 10 sem hvílir á dreifingu undirliggjandi gagna.
Síðan eru undirþættirnir vegnir í meðaltöl, og slíkt hið sama gildir um þættina og að lokum um hin fimm meginsviðin, og til verður gildi fyrir hvert land. Löndum er síðan raðað eftir einkunn, sem segir til um í hvaða mæli þau fylgja stefnu sem leiðir til efnahagslegs frelsis.