Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram fyrirspurn til allra ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrr á árinu til að freista þess að fá yfirsýn yfir sjóði á vegum ráðuneytanna og stofnana þess.
Í svörum frá ráðuneytunum kemur í ljós að af 55 sjóðum voru einungis 19 sjóðir með undir 5% af úthlutuðum fjármunum í umsýslukostnað.
Ef rýnt er í svörin er ljóst að sumir sjóðir voru með einstaklega háan umsýslukostnað í fyrra en kostnaðurinn t. d. við að starfrækja Bjargráðasjóð matvælaráðuneytisins, í hlutfalli við þá fjármuni sem var úthlutað úr sjóðnum í fyrra, nam 67,7%.
Kostnaðurinn við Fiskræktarsjóð, sem matvælaráðuneytið starfrækir einnig, var síðan 19,4%.
Samstarfssjóður um heimsmarkmið SÞ dýr í rekstri
Kostnaður utanríkisráðuneytisins við að starfrækja samstarfssjóð við atvinnulíf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna var 17,6 milljónir en sjóðurinn úthlutaði 67,9 milljónum og var því hlutfallið 26%.
Aðrir sjóðir eru hóflegri en engu að síður fylgir þeim mikill kostnaður. Umsýslukostnaður umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins af loftslagssjóði, Orkusjóði og Fornminjasjóði var yfir 7% á hvern sjóð.
Bókfærður kostnaður við umsýslu Fornminjasjóðs í fyrra var 5,2 milljónir króna sem var um 7,7% af veittum styrkjum, sem dæmi.
Ígildi tæplega 1.500 meðalmánaðarlauna á árinu
„Skörun á milli sjóða og hár umsýslukostnaður Í svörum ráðherranna við fyrirspurn minni kemur fram að samanlögð fjárframlög sjóðanna eru tæplega 22,5 milljarðar króna á ári. Kostnaður af umsýslu sjóðanna er hins vegar metinn á tæpan milljarð árlega,“ skrifar Hildur í aðsendri grein í Morgunblaðinu.
„Það þykir mér há tala og til glöggvunar er hún ígildi tæplega 1.500 meðalmánaðarlauna á árinu 2022. Svörin staðfesta að það virðist vera of lítil yfirsýn yfir sjóðakerfið í heild með skörun á milli ýmissa sjóða um svipuð málefni og jafnvel milli ráðuneyta. Það sem er einnig umhugsunarvert er að umsýslukostnaður sjóðanna er misjafn og oft ótrúlega mikill miðað við stærð og umfang.“
Af þeim sjóðum sem höfðu hærri umsýslukostnað voru 27 sjóðir með 5-10%, sjö sjóðir með 10-25% og tveir sjóðir með yfir fjórðung í umsýslukostnað.
„Það segir sig sjálft að hér er hægt, og verður, að gera betur. Það er ábyrgðarhluti okkar sem störfum í stjórnmálum að vera stöðugt gagnrýnin á hverja einustu krónu sem er eytt af hálfu hins opinbera og þá ekki síst á verðbólgutímum,“ segir Hildur.
„Ég er viss um að alveg eins og sumir sjóðir eru mjög mikilvægir eru aðrir það ekki. Þar verður að hafa vilja til að forgangsraða. Ég er líka viss um að umsýslukostnaði sé hægt að ná niður með meiri heildarsýn og samþættingu. Verkefnið nú verður að vera að skoða hvernig við getum bætt sjóðaumhverfið með aukinni skilvirkni og einblínt á þau verkefni sem þurfa aðstoð til að vaxa og dafna samfélaginu til góðs,“ segir Hildur að lokum.