Hildur Sverris­dóttir, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, lagði fram fyrir­spurn til allra ráð­herra ríkis­stjórnarinnar fyrr á árinu til að freista þess að fá yfir­sýn yfir sjóði á vegum ráðu­neytanna og stofnana þess.

Í svörum frá ráðu­neytunum kemur í ljós að af 55 sjóðum voru einungis 19 sjóðir með undir 5% af út­hlutuðum fjár­munum í um­sýslu­kostnað.

Ef rýnt er í svörin er ljóst að sumir sjóðir voru með ein­stak­lega háan um­sýslu­kostnað í fyrra en kostnaðurinn t. d. við að starf­rækja Bjarg­ráða­sjóð mat­væla­ráðu­neytisins, í hlut­falli við þá fjár­muni sem var út­hlutað úr sjóðnum í fyrra, nam 67,7%.

Kostnaðurinn við Fisk­ræktar­sjóð, sem mat­væla­ráðu­neytið starf­rækir einnig, var síðan 19,4%.

Sam­starfs­sjóður um heims­mark­mið SÞ dýr í rekstri

Kostnaður utan­ríkis­ráðu­neytisins við að starf­rækja sam­starfs­sjóð við at­vinnu­líf um heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna var 17,6 milljónir en sjóðurinn út­hlutaði 67,9 milljónum og var því hlut­fallið 26%.

Aðrir sjóðir eru hóf­legri en engu að síður fylgir þeim mikill kostnaður. Um­sýslu­kostnaður um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráðu­neytisins af lofts­lags­sjóði, Orku­sjóði og Forn­minja­sjóði var yfir 7% á hvern sjóð.

Bók­færður kostnaður við um­sýslu Forn­minja­sjóðs í fyrra var 5,2 milljónir króna sem var um 7,7% af veittum styrkjum, sem dæmi.

­Ígildi tæp­lega 1.500 meðal­mánaðar­launa á árinu

„Skörun á milli sjóða og hár um­sýslu­kostnaður Í svörum ráð­herranna við fyrir­spurn minni kemur fram að saman­lögð fjár­fram­lög sjóðanna eru tæp­lega 22,5 milljarðar króna á ári. Kostnaður af um­sýslu sjóðanna er hins vegar metinn á tæpan milljarð ár­lega,“ skrifar Hildur í að­sendri grein í Morgun­blaðinu.

„Það þykir mér há tala og til glöggvunar er hún í­gildi tæp­lega 1.500 meðal­mánaðar­launa á árinu 2022. Svörin stað­festa að það virðist vera of lítil yfir­sýn yfir sjóða­kerfið í heild með skörun á milli ýmissa sjóða um svipuð mál­efni og jafn­vel milli ráðu­neyta. Það sem er einnig um­hugsunar­vert er að um­sýslu­kostnaður sjóðanna er mis­jafn og oft ó­trú­lega mikill miðað við stærð og um­fang.“

Af þeim sjóðum sem höfðu hærri um­sýslu­kostnað voru 27 sjóðir með 5-10%, sjö sjóðir með 10-25% og tveir sjóðir með yfir fjórðung í um­sýslu­kostnað.

„Það segir sig sjálft að hér er hægt, og verður, að gera betur. Það er á­byrgðar­hluti okkar sem störfum í stjórn­málum að vera stöðugt gagn­rýnin á hverja einustu krónu sem er eytt af hálfu hins opin­bera og þá ekki síst á verð­bólgu­tímum,“ segir Hildur.

„Ég er viss um að alveg eins og sumir sjóðir eru mjög mikil­vægir eru aðrir það ekki. Þar verður að hafa vilja til að for­gangs­raða. Ég er líka viss um að um­sýslu­kostnaði sé hægt að ná niður með meiri heildar­sýn og sam­þættingu. Verk­efnið nú verður að vera að skoða hvernig við getum bætt sjóða­um­hverfið með aukinni skil­virkni og ein­blínt á þau verk­efni sem þurfa að­stoð til að vaxa og dafna sam­fé­laginu til góðs,“ segir Hildur að lokum.