Gísli Guðni Hall, lögmaður Styrmis Þórs Bragasonar, fyrrverandi forstjóra MP-banka, segist ekki vilja tjá sig um það hvort málinu verði áfrýjað, eftir dóm héraðsdóms í dag.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið til að greiða Styrmi tæplega 40 milljónir í skaðabætur vegna fjártjóns og miska.

Farið var fram á 225 milljóna bótagreiðslu í málinu til samræmis við hátekjustarf Styrmis og þann miska sem hann varð fyrir af því að vera dæmdur sekur að ósekju í eins árs fangelsi.

Styrmir var handtekinn vegna málsins í nóvember 2009, rúmu ári eftir að hann lét af störfum hjá MP banka, forvera Kviku banka. Hann var ákærður nokkrum mánuðum síðar.

Málið flakkaði á milli dómstiga og endaði með sakfellingardómi Hæstaréttar árið 2013, þar sem hann var dæmdur til fangelsisvistar, sem Styrmir afplánaði. Um 9 árum eftir sakfellingardóminn fékkst dómur Hæstaréttar í endurupptökumáli, þar sem áfrýjun málsins til Hæstaréttar var vísað frá Hæstarétti, þannig að stóð sýknudómur héraðsdóms sem hinn endanlegi dómur.

Í millitíðinni hafði Mannréttindadómstóll Evrópu komist að niðurstöðu um að Ísland hefði gerst brotlegt gegn ákvæði sáttmálans um réttláta málsmeðferð, við meðferð málsins. Eftir þetta allt saman leitaði Styrmir réttar síns gagnvart íslenska ríkinu.

Spurður um hvort hann telji tæpar 40 milljónir nægilega háar bætur fyrir tekjutap og miska Styrmis, segir Gísli svona upphæðir séu alltaf byggðar á mati hverju sinni.

„Það var viðbúið að það kæmi einhver tala út úr þessu. Það var eingöngu spurning hvað dómurinn teldi hæfilegar bætur,” segir Gísli.

„Þegar um er að ræða að maður er handtekinn í nóvember 2009, sakfelldur með dómi Hæstaréttar 2013 og endanlega sýknaður 2022 eftir endurupptökuferli í Hæstarétti, eftir málsmeðferð fyrir mannréttindadómstóli Evrópu, þegar hann hefur verið með sakfellingardóm á bakinu í níu ár.“

„Hann missti vinnuna sína sem framkvæmdastjóri í banka, góða vinnu, og hefur ekki uppfyllt hæfisskilyrði og fleira. Af öllu þessu samanlögðu, sem felur í sér umturnun á lífi manns og mun hafa áhrif á hann um ókomna tíð, má velta fyrir sér hvað sé hæfilegt og nú höfum við mat héraðsdóms á því,“ segir Gísli.

Styrmir lýsti sjálfur lífsreynslunni sem „algjöru helvíti“ í hlaðvarpsþætti Athafnafólksins árið 2023.

„Þú ert náttúrulega bara dæmdur maður úti á götu. Þú þarft alltaf að vera á varðbergi, þú veist aldrei hvort það sé verið að fara að veitast að þér eða hvernig hlutirnir eru,“ sagði Styrmir.

Hægt er að lesa ítarlega frétt um mál Styrmis Þórs hér að neðan.