Íslenska sjávarlíftæknifyrirtækið Unbroken hefur gert „tímamóta“ styrktar- og samstarfssamning við hjólreiðalið Lidl-Trek. Um er að eitt fremsta hjólreiðalið í heimi þ.e. karla, kvenna og unglingalið. Einnig var gerður samstarfsamningur við fjallahjólreiðalið Trek Factory Racing (MTB).

Samstarfið er til þriggja ára sem hefst formlega í byrjun júlí og er metið á vel á annan milljarð króna, að því er segir í fréttatilkynningu.

Unbroken framleiðir fæðubótarefni sem hraðar endurheimt vöðva. Félagið segir að með samstarfssamningnum opnist fyrir dreifingu Unbroken í þúsundum Trek-verslana víðs vegar um heiminn, auk þess sem varan verði aðgengileg í Lidl-búðum á alþjóðamarkaði.

„Samningurinn er með allra stærstu styrktar- og samstarfssamningum sem íslenskt fyrirtæki hefur gert,“ segir Steinar Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Unbroken.

„Það er mikil viðurkenning á gæði vörunnar að afreksíþróttafólk noti Unbroken í hjólreiðakeppni eins og Tour de France, en árlega horfa um 3 milljarðar á Tour de France, en keppnisbúningar Lidl-Trek liðsins verða merktir vörumerkinu.“

Steinar segir jafnframt að Lidl-Trek liðið hafi komist í kynni við Unbroken síðastliðið sumar í gegnum hjólreiðamanninn Andy Schleck, en Andy vann Tour de France árið 2010. „Lidl-Trek liðið notar Unbroken fyrir og eftir allar æfingar með góðum árangri,“ segir Steinar.

Unbroken hefur jafnframt skrifað undir samstarfssamning við Andy Schleck sem verður alþjóðlegur sendiherra Unbroken.

„Ég er stoltur af því að vera hluti af Unbroken-teyminu og mun styðja við samstarfið við Lidl-Trek keppnisliðið. Unbroken skilar því sem íþróttamenn þurfa – tafarlausri næringu vöðva, dregur úr eymslum og eykur þol. Þetta breytir leiknum fyrir atvinnuhjólreiðar og fyrir alla sem vilja hraða bata sínum og bæta frammistöðu,“ er haft eftir Andy.

Matthias Skjelmose, liðsmaður Trek-Lidl liðsins.

Trek og Lidl dreifa Unbroken í sínar búðir

Unbroken verður fáanlegt í þúsundum verslana Trek, ennfremur verður það selt í yfir 5.000 hjólreiðaverslunum sem selja Trek vörur. Að aukiverður Unbroken selt í völdum verslunum Lidl á næsta ári sem er ein stærsta verslunarkeðjan í Evrópu.

Unbroken er nú þegar selt í Bandaríkjunum, Evrópu og Miðausturlöndum og uppfyllir allar vottunarkröfur.