Sé litið fram hjá sögulegu skriði hlutabréfaverðs Nvidia hefur gengi Apple hækkað mest af tæknifyrirtækjunum vestanhafs frá því að heimsfaraldur Covid-19 skall á, samkvæmt Unhedged fréttabréfi Financial Times í dag.
Pistlahöfundar fjalla þar um gengishækkun Apple síðastliðin ár en þeim þykir undravert að fyrirtækið virðist alltaf njóta góðs af þegar smávægilegar tæknibólur myndast á markaði en tekur sjaldnast þátt í dýfunum sem eiga til að fylgja.
Nú síðast fóru tæknifyrirtækin á flug um miðjan apríl er verðbólga var að hjaðna og vonir um að vaxtalækkanir væru handan við hornið jukust.
Þegar þær vonir fóru að dvína yfir sumartímann lækkaði gengið hjá flestum að nýju en hlutabréfaverð Apple tók minni dýfu en t.d. gengi Microsoft, Google og Meta.
Síðastliðinn mánuð hefur gengi Meta lækkað um 2% og Nvidia um 1% á meðan gengi Apple hefur hækkað um rúmt 1%.
Hlutabréfaverð Apple hækkaði einnig meira en Google, Microsoft og Meta þegar gervigreindarskrumið var sem hæst á mörkuðum. Nú síðast í júní rauk gengi Apple upp eftir að fyrirtækið greindi frá samstarfssamningi við OpenAI.
Pistlahöfundar benda á að þessi einstaka hegðun á gengi Apple sé þó ekki ný af nálinni en FTfjallaði um sambærilegar hreyfingar fyrir um tveimur árum.
Hvernig hlutabréfaverð Apple aðskilur sig hins vegar hinum tæknifyrirtækjunum hefur orðið greinilegra í ár, sér í lagi vegna þess að vöxtur fyrirtækisins er minni í ár en hjá hinum tæknirisunum.
Með sambærilegt V/H hlutfall og Microsoft
Eftirspurn eftir vörum Apple er að dragast saman og eru nýjar vörur ekki að ná sömu sölutölum og áður.
Hversu mikið má rekja samdráttinn til lögmáls stórra talna og hversu mikið má rekja til minni nýbreytni er erfitt að setja, að mati pistlahöfunda.

© epa (epa)
Apple hefur reynt að kveikja áhuga viðskiptavina sinna að nýju með því að veðja á gervigreind líkt og sást í gær þegar fyrirtækið kynnti nýja Iphone 16 símann.
Fjárfestar gætu þó einnig verið hrifnir af því að tekjur Apple virðast haldast nokkuð stöðugar á milli fjórðunga, þó að hlutfall þjónustutekna sé að aukast til muna.
Hlutfall markaðsvirðis og hagnaðar hjá Apple hefur þó ekki verið hærra síðan 2021 og er það því ekki hærra síðan 2021 og er hlutfallið nánast sambærilegt og V/H hlutfall Microsoft.
Því spyrja pistlahöfundar hversu lengi slík þróun getur haldið áfram en það er þó erfitt að svara því.