Kaupsamningur um kaup SRE III slhf., nýs sérhæfðs sjóðs í rekstri Stefnis, á öllu hlutafé í Heimstaden á Íslandi var undirritaður þann 28. desember 2023.

Greint er frá undirritun kaupsamningsins í fundarboði kröfuhafafundar en óskað er eftir að eigendur skuldabréfa útgefnum af A/F Heim, sjóðs sem fjárfesti í skráðum skuldabréfum sem upphaflega voru útgefin af Heimavöllum, gefi eftir og felli niður öll réttindi og skyldur á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar Heimstaden AB.

Í fundarboðinu kemur fram að kaupsamningurinn sé háður skilyrðum, t.d. samþykki samkeppnisyfirvalda, en einnig að sjálfskuldarábyrgðinni verði aflétt þar sem Heimstaden AB mun ekki lengur tengjast Heimstaden ef kaupin ganga í gegn. Af þeim sökum hefur Heimstaden óskað eftir því að sjálfskuldarábyrgðinni verði aflétt, ef öll önnur skilyrði kaupsamningsins verða uppfyllt.

Arctica Finance er ráðgjafi Fredensborg AS við söluna á Heimstaden ehf. til sjóðs Stefnis.

Lífeyrissjóðir stórauka hlutdeild sína á leigumarkaðnum

Í október var tilkynnt um að Stefnir og norska félagið Fredensborg AS, eigandi Heimstaden ehf., hefðu komist að samkomulagi um möguleg kaup nýs sjóðs á vegum Stefnis á öllu hlutafé í Heimstaden á Ísland, sem á um 1.600 íbúðir hér á landi.

Endanlegir kaupendur í gegnum sjóð Stefnis verða eingöngu lífeyrissjóðir og koma viðskiptin því til með að marka verulega aukna hlutdeild þeirra á leigumarkaðnum.

Þegar tilkynnt var um samkomulagið í október sagði Stefnir að markmiðið með kaupunum væri að reka sjálfbært leigufélag sem hafi burði til að styðja við nauðsynlega íbúðauppbyggingu á næstu árum og með því styrkja leigumarkaðinn hér á landi.

„Sérstakur sjóður eða félag í rekstri Stefnis mun fara með eignarhald félagsins og fjármagna starfsemina með eiginfjárframlagi og lánsfjármögnun. Félaginu yrði skipuð sjálfstæð stjórn sem fær það mikilvæga verkefni að byggja enn frekar ofan á þann góða árangur sem hefur náðst og þannig skapa raunhæfan langtímavalkost á íslenskum húsnæðismarkaði.“