Festi og eigendur Lyfju, SID ehf., undirrituðu í dag samning um kaup Festi á öllu hlutafé í Lyfju. Líkt og tilkynnt var um í mars er heildarvirði Lyfju í viðskiptunum metið á 7,8 milljarða króna. „Endanlegt heildarvirði og kaupverð mun ráðast af skuldastöðu Lyfju við afhendingu ásamt gengi hlutabréfa í Festi á þeim tíma,“ segir í tilkynningu Festi til Kauphallarinnar.
Samkvæmt kaupsamningnum þá verður kaupverðið greitt með afhendingu 10 milljón hluta í Festi, eða sem nemur tæplega 1,8 milljörðum króna að markaðsvirði í dag, og greiðslu 6 milljarða króna með handbæru fé að frádregnum nettó vaxtaberandi skuldum Lyfju á efndadegi.
Viðskiptin eru m.a. háð skilyrðum um samþykki hluthafafundar Festi, sem boðað verður til á næstu vikum, og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi viðskiptin eftir er gert ráð fyrir að þeim ljúki á fyrsta ársfjórðungi 2024.
„Við erum afar ánægð með þessi kaup. Lyfja er vel rekið félag með reynslumikið og hæft starfsfólk sem stendur að baki þessa sterka og rótgróna vörumerkis. Mikil tækifæri felast í samþættingu þjónustu þvert á félögin innan Festi sem og framboði breiðara úrvals nauðsynjavara á hagstæðu verði fyrir viðskiptavini okkar um land allt. Samhljómur fyrirtækjanna er skýr m.a. hvað varðar fyrirbyggjandi heilsuvernd og aukin þægindi við innkaup,“ segir Ásta S. Fjeldsted forstjóri Festi.
Lyfja sérhæfir sig í rekstri apóteka auk heild- og smásölu með heilsutengdar vörur. Félagið starfrækir í dag 45 apótek og útibú allan hringinn í kringum landið. Hjá Lyfju og dótturfélögum starfa um 380 manns. Heildarvelta Lyfju var 15 milljarðar króna árið 2022.
Áætlanir Lyfju fyrir árið 2023 gera ráð fyrir að hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA), án IFRS16 áhrifa, nemi 1.044 milljónum króna.
„Ég hef átt samleið með apótekum Lyfju í bráðum 30 ár, fyrst sem lyfjafræðingur og stofnandi og síðar sem fjárfestir og stjórnarformaður. Ég er afar stoltur af því sem starfsfólk okkar hefur áorkað á síðustu tæpu fimm árum og hlakka til að fylgjast með Lyfju dafna til framtíðar innan samstæðu Festi. Félagið hefur byggt upp ólík verslunarfélög með hugmyndafræði sem viðskiptavinum líkar og starfsfólkið er stolt af. Ég tel að Lyfja eigi vel heima innan þessarar fjölskyldu,“ segir Ingi Guðjónsson, stjórnarformaður Lyfju og einn eigenda SID ehf.
SID, móðurfélag Lyfju, er í 70% eigu framtakssjóðsins SÍA III. Þá eiga félögin Þarabakki ehf., í eigu Daníels Helgasonar, og Kaskur ehf., í eigu Inga Guðjónssonar, 15% hlut hvor um sig.
Sigríður Margrét Oddsdóttir hefur starfað sem forstjóri Lyfju frá árinu 2019. Fyrir rúmum mánuði var tilkynnt um að hún hefði verið ráðin framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA). Hún mun hefja störf hjá SA og láta af störfum sem forstjóri Lyfju í september.