Tvísköttunarsamningur milli Íslands og Brasilíu var undirritaður í húsakynnum utanríkisráðuneytisins við Austurhöfn í gær. Á næstu mánuðum verður unnið að fullgildingu samningsins.

Samningurinn er liður í stefnu stjórnvalda um að fjölga tvísköttunarsamningum og tryggja þannig aðgang íslenskra fyrirtækja að fjármagni og vinnuafli en jafnframt gera þeim og launþegum kleift að stunda viðskipti og störf sín erlendis, án tvískattlagningar.

Í tilkynningu utanríkis- og fjármálaráðuneytisins segir að Brasilía sé mikilvægt viðskiptaland Íslands og að samningurinn verið lengi í undirbúningi. Brasilísk stjórnvöld eigi sömuleiðis í aðildarviðræðum við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD).

Tvísköttunarsamningurinn sé að stórum hluta í samræmi við stefnumörkun OECD í tvísköttunarmálum og tekur jafnframt mið af stefnumörkun Sameinuðu þjóðanna.

„Markmið samningsins er að koma í veg fyrir tvísköttun á atvinnurekstur, fjárfestingar, laun, tekjur milli ríkjanna og vinna gegn skattundanskotum. Með því að ryðja úr vegi skattalegum hindrunum auðveldar samningurinn starfsemi fyrirtækja og vinnu einstaklinga milli ríkjanna og hvetur til gagnkvæmra fjárfestinga.

Þá jafnar samningurinn samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og launþega á erlendum vettvangi og eykur fyrirsjáanleika þeirra í viðskiptum og störfum.“

Samningurinn, sem nær til tekjuskatta, var undirritaður af Bergdísi Ellertsdóttur, sendiherra og staðgengli ráðuneytisstjóra, fyrir hönd Íslands og Rodrigo de Azeredo Santos, sendiherra, fyrir hönd Brasilíu.