Í leiðara Financial Times er því haldið fram að ný­leg ákvörðun Donalds Trump, for­seta Bandaríkjanna, um að leggja um­fangs­mikla gagn­kvæma tolla á við­skiptaþjóðir landsins, geti orðið eitt mesta sjálfs­skaða­verk bandarísks efna­hags­lífs um ára­tuga­skeið, ef að­gerðirnar verða lang­varandi.

Leiðarinn, sem birtist undir fyrir­sögninni „America’s astonis­hing act of self-harm,“ segir að tollarnir muni hafa víðtæk neikvæð áhrif á heimili, fyrir­tæki og fjár­mála­markaði víða um heim, auk þess að veikja þann alþjóð­lega efna­hags­lega stöðug­leika sem Bandaríkin sjálf hafa átt þátt í að skapa og notið góðs af.

Líkt og öllum ætti að vera orðið kunnugst hyggst Trump inn­leiða að minnsta kosti 10% toll á allar inn­fluttar vörur, auk sér­tolla á lönd sem Bandaríkin hafa veru­legan við­skipta­halla við, svo sem Kína, Mexíkó og Kanada.

Sam­kvæmt leiðaranum mun þetta hækka virka toll­hlut­fall Bandaríkjanna í hæsta stig í meira en heila öld.

Rit­stjórn Financial Times segir rök­semdir for­setans byggja á grund­vallar­mis­skilningi þar sem hann meðhöndlar við­skipta­halla líkt og rekstrar­tap fyrir­tækis, fremur en sem af­leiðingu flókinna alþjóð­legra virðiskeðja.

Í leiðaranum er því spáð að þessi ákvörðun muni leiða af sér aukna verðbólgu og minni hag­vöxt í Bandaríkjunum, auk þess að skaða efna­hags­þróun í öðrum löndum, sér­stak­lega í Asíu og Evrópu.

Einnig er varað við því að stefna Trumps geti leitt af sér hnattræna verndar­stefnu. Rit­stjórn hins virta við­skipta­miðils hvetur hins vegar við­skiptaþjóðir Bandaríkjanna til að forðast hvat­vísa svörun og í staðinn beina áherslum sínum að styrkingu fríverslunar­samninga sín á milli án aðkomu Bandaríkjanna.

„Þetta var enginn sigur­dagur fyrir Bandaríkin,“ segir í leiðaranum, „og ef Trump nær sínu fram verður bandarískt efna­hags­líf ein­angrað frá því kerfi sem hefur verið lykil­for­senda vel­megunar landsins síðustu hundrað ár. Heimurinn allur mun finna fyrir af­leiðingunum, en önnur lönd þurfa ekki nauð­syn­lega að feta í fót­spor Bandaríkjanna.“