Eitt af því sem hefur einkennt fjármálageirann síðustu árin eru hraðar tækniframfarir. Einn af fylgifiskum þess er að bankaþjónusta hefur að miklu leyti færst yfir á netið og geta viðskiptavinir til að mynda afgreitt sig sjálfir í flest öllum þjónustuþáttum í gegnum smáforrit bankanna. Með nýjum kynslóðum, sem hafa alist upp samhliða miklum tækniframförum, myndast sífellt meiri kröfur til banka og annarra að bjóða upp á skilvirkar tæknilausnir.

Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, segir að heilt yfir hafi Íslandsbanka gengið vel að aðlagast þessum breytingum og ná þannig um leið til unga fólksins. „Við höfum fjárfest ríkulega í smáforritinu okkar sem er að mínu mati í dag það besta á bankamarkaði. Við höfum einnig lagt áherslu á að hjálpa viðskiptavinum að hlúa að fjárhagslegri heilsu og þær nýjungar sem hafa fylgt þeirri áherslu hafa fallið vel í kramið. Að sama skapi hefur bankinn boðið ungu fólki upp á fræðslu, t.d. um verðbréfamarkaðinn. Þátttakan hefur verið góð og áhuginn mikill.“

Eins og Jón Guðni nefnir, og hefur vart farið framhjá þeim sem verða varir við markaðsefni frá bankanum, er eitt helsta áherslumál Íslandsbanka þessi misserin að styðja við fjárhagslega heilsu viðskiptavina sinna. En hvað felur það í sér og hvers vegna telur Jón Guðni það mikilvægt?

„Í þessu umhverfi þar sem verðbólga og vextir hafa verið há um langt skeið finnum við að áhyggjur fólks af fjárhagslegri heilsu hafa aukist. Við viljum koma til móts við viðskiptavini og styðja við bakið á þeim, með þjónustu, fræðslu og vörum sem falla að þessari áherslu,“ útskýrir hann.

Í byrjun árs hafi bankinn sett sér nýja stefnu og í ár sé fjárhagsleg heilsa rauði þráðurinn í stefnunni. „Hluti af því er að vinna að tæknilausnum sem gera viðskiptavinum kleift að bæta fjárhagslega heilsu sína. Á sama tíma erum við að leggja áherslu á nýtt gildi – framsækni – sem felur í sér að tvinna tækninýjungar saman við persónulega þjónustu. Við sjáum t.d. veruleg tækifæri í nýtingu gervigreindar til að styrkja starfsemi bankans og um leið þjónustu við viðskiptavini.“

Því hefur verið haldið fram að samhliða framförum í gervigreindarlausnum muni þörfin fyrir bankastarfsfólk verða sífellt minni. Aðspurður kveðst Jón Guðni ekki reikna með að gervigreindin muni leysa mannshöndina af hólmi í bráð heldur muni gervigreindin fyrst og fremst breyta eðli starfanna.

„Ég tel að síaukin áhersla á notkun gervigreindar muni breyta eðli starfanna og auka skilvirkni verulega. Við erum þegar farin að nýta gervigreindina á fjölmörgum sviðum starfseminnar, t.d. í þróunarvinnu nýrra forrita og í vinnu tengdri texta- og myndagerð. Þessi þróun verður hröð og við sjáum tækifæri fyrir allar einingar bankans að hagnýta gervigreindina í sínum störfum,“ segir hann og bætir við að sem dæmi séu tækifæri til að nýta gervigreindina til að hraða verulega úrvinnslu lánamála og um leið bæta skilvirkni og þjónustu.

Til marks um fyrrgreindar breytingar samhliða tækniframförum bendir Jón Guðni á að um fjórðungur starfsfólks bankans starfi í hugbúnaðardeildinni. Í lok síðasta ársfjórðungs störfuðu 770 manns hjá Íslandsbanka. „Bankar eru nú þegar orðnir blanda af fjármála- og tæknifyrirtæki. Það kæmi lítið á óvart ef þróunin til framtíðar yrði enn meira í þá áttina.“

Nánar er rætt við Jón Guðna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér og viðtalið í heild hér.