Garðþjónustufyrirtækið Garðfix var nýlega stofnað af þeim Andra Þór Bergmanni og Arngrími Agli Gunnarssyni, en þeir eru tveir 17 ára menntaskólastrákar við Verzlunarskóla Íslands. Fyrirtæki þeirra leigir út sjálfvirkar sláttuvélar sem sjá um allan grasslátt fyrir viðskiptavini yfir sumartímann.
Vélarnar eru svipaðar og sjálfvirku ryksuguvélmennin sem komu fyrst út árið 2002 og hafa séð um að ryksuga stofugólf landsmanna í mörg ár.

„Þetta er tiltölulega nýlega komið til landsins en það eru alls konar fyrirtæki eins og Buahaus sem hafa verið að bjóða upp á eina tegund af róbot. Við fáum okkar róbota frá sænsku fyrirtæki sem heitir Husqvarna en það er stærsta fyrirtæki í heiminum þegar kemur að svona vélum,“ segir Andri Þór Bergmann, einn af stofnendum Garðfix.
Hann segir að sláttuvélin geti slegið blettinn á hverjum einasta degi yfir sumarið og vélarnar geri það að verkum að garðurinn líti nánast út eins og púttvöllur á golfvelli. Róbotarnir ráða einnig vel við íslenskar veðuraðstæður og geta slegið í roki og rigningu.
Nánar er fjallað um Garðfix í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.