Stjórn Ungra Pírata hefur sent frá sér ályktun þar sem hún gagnrýnir harðlega þingsályktunartillögu eins þingmanns Pírata, Andrésar Inga Jónssonar, og fjögurra þingmanna Vinstri grænna um bann við auglýsingum á jarðefnaeldsneyti og vörum því tengdu.
Ungliðahreyfingin telur tillöguna bæði ólíklega til að skila árangri og í ósamræmi við grunnstefnu Pírata. „Píratar, sama hvaðan þeir koma, eiga að fylgja grunnstefnu Pírata,“ segir í ályktuninni.
Ritskoðun þjóni ekki tilgangi sínum
Viðskiptablaðið fjallaði í dag um þingsályktunartillöguna sem Eva Dögg Davíðsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Orri Páll Jóhannsson, Jódís Skúladóttir og Andrés Ingi Jónsson lögðu fram.
Þau leggja til að banna eigi auglýsingar á jarðefnaeldsneyti til að vinna gegn loftslagsvánni. Þingmennirnir vilja jafnframt að bannið nái ekki bara til olíufyrirtækja heldur einnig til vöru og þjónustu sem nýtir þessa orkugjafa í miklum mæli, t.d. bíla, flugferða og ferða með skemmtiferðaskipum.
Ungir Píratar telja tillöguna ekki til þess fallna að taka á þeim vanda sem loftslagsbreytingar eru. Í stað þess að leysa vandann sé hún fremur til þess fallin að snúa almenningi frá viðbrögðum við vánni.
„Ritskoðun af þessu tagi, svo víðfeðm að engin leið er til að sjá mörk þess hvað er „vara tengd framleiðslu eða notkun jarðefnaeldsneytis” mætir ekki tilgangi sínum og þörfum ungs fólks sem óttast loftslagsvánna.“
Nálgist málið frá rangri hlið
Ungliðahreyfingin telur auk þess ólíklegt að slíkt auglýsingabann myndi draga mælanlega úr neyslu eldsneytis „enda sé eftirspurnin eftir eldsneyti mun óteygjanlegri en eftirspurn til dæmis tóbaks“.
Ungir Píratar telja þingmennina nálgast málið frá rangri hlið með því að leggja til bannstefnu í stað þess að boða til aðgerða sem hvetji stórfyrirtæki að færa sig yfir í græna og sjálfbæra orkugjafa.
„Ungir Píratar vilja frekar sjá auglýsingar tengdar jarðefnaeldsneyti sólsetrast þegar þær verða tímanlega óþarfar, heldur en að sjá þær bannaðar af hendi ríkisins,“ segir í ályktuninni.
„Lausnin er ekki að torvelda almenningi aðgengi að umræddum vörum, heldur breyta kerfinu, samgönguvenjum og neysluþörfum með kerfislægri uppbyggingu innviða og hvatamiðaðra aðgerða.“
Stjórn Ungra Pírata segir óumdeilt að öll ríki heims þurfi að leita lausna við loftslagsvánni og huga að markvissum aðgerðum. Í þeim efnum þurfi að tryggja að framkvæmd þessara aðgerða, t.d. hlutverk almennings og fyrirtækja, ásamt samræmdum markmiðum íslenskra stjórnvalda við erlend ríki, spili saman.
„Samspil ofangreindra þátta verður ekki tryggt með því að banna auglýsingar á tilteknum vörum og afþreyingu.“