World Class hefur ákveðið að gefa frían vikupassa fyrir alla nemendur í unglingadeild Áslandsskóla í 8. bekk, 9. bekk og 10. bekk. Passinn gildir í allar stöðvar World Class ásamt þeim sundlaugum sem tilheyra stöðvunum.

Áslandsskóli í Hafnarfirði er einn af þeim níu skólum þar sem kennarar hafa lagt niður störf undanfarna tvo daga.

Foreldri eins barns í skólanum hafði haft samband við World Class og útskýrði ástandið í kringum verkfall kennara. Líkamsræktarstöðin samþykkti í kjölfarið að bjóða upp á ókeypis vikupassa til að hjálpa krökkunum að halda andlegri og líkamlegri heilsu og á sama tíma hitta aðra skólafélaga.

Björn Leifsson, einn þriggja eigenda World Class, segir í samtali við Viðskiptablaðið að líkamsræktarstöðin hafi tekið vel í að bjóða nemendum upp á að geta hreyft sig og gert eitthvað annað en að hanga bara heima.

Áslandsskóli er eini skólinn sem hefur hingað til beðið um vikupassa fyrir námsmenn en Björn segir að skyldu aðrir foreldrar, sem eru einnig með unglinga í miðju verkfalli, biðja um slíkt hið sama ætti World Class að geta orðið við þeirri beiðni.