Ítalski bankinn UniCredit hefur keypt 9% hlut í þýska bankanum Commerzbank og vinnur jafnframt að því að stækka hlut sinn enn frekar. Fjárfestingin gæti opnað á langþráða samþjöppun í þýska bankageiranum, að því er segir í frétt Financial Times.
UniCredit keypti 4,5% hlut í Commerzbank af þýska ríkinu fyrir 702 milljónir evra, eða um 107 milljarða króna, og annan eins hlut á opnum markaði. Þýska ríkið er enn stærsti hluthafi Commerzbank með 12% hlut.
UniCredit á þegar bankann HypoVereinsbank, sem er með höfuðstöðvar í Munich. Ítalski bankinn hefur lengi þótt einn helsti kandídatinn í að ráðast í yfirtöku á Commerzbank.
UniCredit sagði í tilkynningu í morgun að hann myndi eiga í samskiptum við stjórn Commerzbank AG til að kanna tækifæri til verðmætasköpunar fyrir alla hagahafa beggja banka.
Jafnframt sagðist ítalski bankinn ætla leggja fram beiðni til eftirlitsstofnana um heimild til að eignast mögulega yfir 9,9% hlut í Commerzbank en bætti þó við að ekki væri búið að taka ákvörðun um frekari kaup í þýska bankanum.
Hlutabréfaverð Commerzbank hefur hækkað um 15% frá opnun þýska kauphallarinnar.