Ítalski bankinn UniCredit hefur stækkað hlut sinn í þýska bankanum Commerzbank upp í 28% með nýjum framvirkum samningum, að því er kemur fram í kauphallartilkynningu sem bankinn sendi frá sér í morgun.

Greint var frá því þann 11. september síðastliðinn að UniCredit hefði keypt 9% hlut í Commerzbank. Fjárfestingin var talin merki um að UniCredit gæti reynt að taka yfir þýska bankann. Tveimur vikum síðar hafði Unicredit meira en tvöfaldað hlut sinn og fór þá með 21% hlut.

Ítalski bankinn segir að stækkun eignarhlutar í Commerzbank sé í samræmi við útgefin markmið bankans um að eignast 29,9% hlut í þýska bankanum. UniCredit segist hafa lagt inn fullnægjandi gögn til eftirlitsaðila sem ætti að fá heimild til að eiga allt að 29,9% hlut. Bankinn hafi þegar óskað eftir heimild frá evrópska bankaeftirlitinu þess efnis og samtal við eftirlitið standi yfir.

UniCredit á í dag 9,5% beinan hlut í Commerzbank og 18,5% hlut í gegnum framvirka samninga.

„Þessu ráðstöfun endurspeglar skoðun UniCredit að töluverð verðmæti séu til staðar innan Commerzbank sem þurfi að móta í kristalla. [Kaupin] endurspegla einnig trú á Þýskalandi, atvinnulífinu og samfélögunum þar, og mikilvægi sterks bankageira til að styðja við efnahagsþróun Þýskalands,“ segir í tilkynningu UniCredit.

UniCredit lagði einnig fram 10 milljarða evra yfirtökutilboð í ítalska keppinaut sinn Banco BPM í síðasta mánuði.

Í umfjöllun Reuters kemur fram að talið sé að UniCredit þurfi að hækka tilboð sitt í Banco BPM en tilboðsverðið er í dag um 14% undir markaðsverði hlutabréfa síðarnefnda bankans.