Ítalski bankinn UniCredit hefur lagt fram 10,1 milljarðs evra yfirtökutilboð í ítalska keppinaut sinn Banco BPM. UniCredit sagði í tilkynningu í morgun að sameinaður banki yrði sá þriðji stærsti í Evrópu sé litið til markaðsvirðis.

UniCredit býður hluthöfum Banco BPM 6,66 evrur á hlut, sem er um 0,5% hærra en dagslokagengi síðarnefnda bankans á föstudaginn síðasta. Tilboðsverðið er hins vegar 14,6% hærra en hlutabréfaverð Banco BPM þann 6. nóvember, daginn sem bankinn lagði fram yfirtökutilboð í eignastýringafyrirtækið Anima Holding upp á 1,6 milljarða evra.

Hlutabréfaverð BPM hefur hækkað um 3% í fyrstu viðskiptum dagsins. Gengi hlutabréfa UniCredit hefur hins vegar lækkað um meira en 3% frá opnun markaða.

Í umfjöllun Financial Times segir að með tilboðinu sé Andrea Orcel, forstjóri UniCredit, að auka áherslu sína á að ná fram samþjöppun á evrópska bankamarkaðnum. Bankinn eignaðist fimmtungshlut í þýska bankanum Commerzbank í haust.