Jochanan Senf, framkvæmdastjóri Ben & Jerry‘s í Evrópu, hefur verið ráðinn forstjóri ísframleiðandans af móðurfyrirtæki sínu, Unilever. Samkvæmt WSJ mun Senf hefja störf í næsta mánuði.

Hann kemur þá í stað fyrrum forstjóra Ben & Jerry‘s, David Stever, sem var sagt upp í mars. Unilever hafði þá átt í langvarandi deilum við stjórn Ben & Jerry‘s vegna pólitískra afskipta stjórnarinnar, þá sérstaklega þegar kemur að málefnum Ísrael.

Samkvæmt kaupsamningi Unilever á Ben & Jerry‘s, sem var undirritaður fyrir meira en tveimur áratugum síðan, fær stjórn Ben & Jerry‘s að viðhalda opinberum pólitískum skoðunum sínum en það ákvæði hefur lengi verið uppspretta deilna milli beggja aðila.

Samkvæmt WSJ fékk stjórn Ben & Jerry‘s ekki tækifæri til að taka viðtöl við umsækjendur og var stjórnin útilokuð frá ráðningarferlinu.