Bandaríska sjúkratryggingafyrirtækið UnitedHealthcare hefur ráðið nýjan forstjóra rúmum tveimur mánuðum eftir að Brian Thompson, þáverandi forstjóri, var skotinn til bana í New York.
Tim Noel mun taka við stjórn fyrirtækisins, sem er það stærsta sinnar tegundar í Bandaríkjunum með meira en 50 milljónir viðskiptavina.
Morðið á Thompson þann 4. desember sl. í miðborg Manhattan leiddi til mikillar umræðu um starfsemi bandaríska heilbrigðiskerfisins. Margir Bandaríkjamenn borga meira fyrir heilbrigðisþjónustu en þegnar annarra landa en lýsa yfir mikilli reiði yfir ósanngjarnri meðferð og aðkomu tryggingafélaga.
Forstjórinn var skotinn fyrir utan hótelið sitt á Manhattan og eftir fimm daga leit var hinn 26 ára Luigi Mangione handtekinn á McDonald‘s-veitingastað í Pennsylvaníu eftir að starfsmaður hringdi á lögregluna.
Mangione hefur lýst sig saklausan af morðákærunni en hann á yfir höfði sér 11 alríkisglæpaákærur, þar á meðal morð sem talið er til hryðjuverka.