Hlutabréfaverð Unity Software, sem Davíð Helgason á ríflega 3% hlut í, hefur lækkað um 11,5% frá opnun markaða í dag eftir að hugbúnaðarfyrirtækið AppLovin dró til baka yfirtökutilboð sitt.
AppLovin lagði fram samrunatilboð í Unity þann 9. ágúst síðastliðinn sem mat síðarnefnda félagið á 17,5 milljarða dala eða 58,85 dali á hlut. Viku síðar hafnaði stjórn Unity, sem Davíð situr í, tilboðinu og ákvað að halda sér við fyrri áform um að kaupa fyrirtækið ironSource, keppinaut AppLovin, á 4,4 milljarða dala. Kaupin á ironSource hefðu fallið upp fyrir hefði stjórnin samþykkt samrunatilboð AppLovin.
Sjá einnig: Unity hafnar yfirtökutilboði AppLovin
Eftir lokun markaða í gær tilkynnti Applovin að það hefði dregið yfirtökutilboðið til baka og hygðist ekki leggja fram bætt tilboð.
Gengi Unity stendur í 37,4 dölum á hlut þegar fréttin er skrifuð og hefur ekki verið lægra síðan í júlí. Markaðsvirði eignarhlutar Davíðs í Unity nemur nú 342 milljónum dala eða sem nemur 47,8 milljörðum króna.
Hlutabréf bandarískra tæknifyrirtækja hafa lækkað töluvert frá opnun markaða í dag eftir að birtingu verðbólgutalna en verðbólgan mældist yfir spám greiningaraðila. Nasdaq-100 Technology Sector vísitalan, sem nær utan um hlutabréf 100 tæknifyrirtækja á bandaríska markaðnum, hefur lækkað um 4,8% í dag.