Hlutabréfaverð hugbúnaðarfyrirtækisins Unity lækkaði um 4% í gær og hefur nú fallið um fjórðung á einum mánuði. Gengi Unity stóð í 23,76 dölum á hlut við lokun markaða í gær, sem er 83% lækkun frá áramótum, og hefur aldrei verið lægra frá skráningu í september 2020. Unity birtir uppgjör eftir lokun markaða í dag.
Davíð Helgason er meðal stærstu hluthafa fyrirtækisins með 9,14 milljónir hluta, sem er um 217 milljónir dala eða 31,7 milljarðar króna að markaðsvirði í dag. Til samanburðar mat Forbes auðæfi Davíðs, sem má að stórum hluta rekja til eignarhlutarins í Unity, á yfir 2 milljarða dala þegar gengi bréfanna var í hæstu hæðum.
Unity gekk í vikunni frá kaupum á hugbúnaðarfyrirtækinu ironSource en kaupsamningurinn var metinn á 4,4 milljarða dala þegar hann var kynntur í sumar. Viðskiptin fela í sér að hluthafar ironSource eignist 26,5% hlut í Unity við útgáfu nýrra hluta. Eignarhlutur Davíðs í Unity þynnist úr 3,1% í 2,2% við viðskiptin.
Unity var skráð á bandaríska hlutabréfamarkaðinn í september 2020 og var útboðsgengi í frumútboði hugbúnaðarfyrirtækisins 52 dalir. Gengi félagsins hækkaði verulega í kjölfarið og fór stuttlega yfir 200 dali fyrir rúmu ári. Síðan þá hafa hlutabréf Unity fallið um 88% í verði.
Rekstrarhorfur Unity hafa versnað eftir sem leið á árið, líkt og hjá öðrum stórum tæknifyrirtækjum. Þá hefur hærra vaxtastig mikil áhrif á verðmat tæknifyrirtækja.